29.04.1918
Efri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (1719)

23. mál, skipamiðlarar

Flm. (Magnús Kristjánsson):

Eins og kunnugt er, þá hafa heyrst allmargar raddir um það, að síðustu þing hefðu verið óþarflega frjósöm að lagafrumvörpum og breytingum á eldri lögum, en jeg. fyrir mitt leyti lít svo á, sem það hafi ekki verið um of. Það hefði verið miklu athugaverðara, ef Alþingi hefði verið andvaralaust um þær breytingar, sem gera þurfti á lögum landsins og þeim nýjum lögum, er þörf var á að setja, í tilefni af breyttum lifnaðarháttum og framþróun þjóðarinnar. Það hlýtur ætíð að vera eitt helsta skylduverk Alþingis að gæta þess, að lög þjóðarinnar sjeu í fullu samræmi við lifnaðarhætti hennar. Og þegar nýir atvinnuvegir rísa upp meðal þjóðarinnar, þarf að gæta þess, hvort eigi þarf að breyta eldri lögum eða setja ný lög.

Frv. það, sem hjer liggur. fyrir, er að fullu tímabært, og jeg lít svo á, sem það hefði ekki mátt dragast að flytja það, svo það gæti náð framgangi. Jeg geri fastlega ráð fyrir því, að öllum komi saman um það, að viðskifti þjóðarinnar eigi sem mest, eða helst að öllu, að vera í höndum innlendra manna, og þá ekki síður þau viðskifti hennar, er lúta að siglingum, skipaleigur, skipakaup o. s. frv.

Til skamms tíma var þessum viðskiftum svo háttað, að vjer urðum að snúa oss til útlendinga um alt það, er að þeim lýtur, en síðustu tvö árin hefir þetta breyst svo, að innlendir menn hafa að miklu leyti annast þessi viðskifti, og er það stríðið, sem gert hefir þessa breytingu. En þegar stríðinu linnir, mun aftur sækja í gamla farið, þetta óeðlilega verslunarlag, sem ríkt hefir hjer um, nema því að eins að trygt sje, að útlendir skipaeigendur geti snúið sjer til manna, sem víst er að njóti trausts hins opinbera. — Og það er tilgangur frv. þessa, að svo verði — viðskiftin haldi áfram í landinu.

Þessu frv. hefir verið sýndur svo mikill heiður, að það hefir verið ráðist á það í blaði nokkru, áður en hæstv. Alþingi gat haft það til meðferðar. Það má nú segja, að þetta sje óþarflega snemma, en það sýnir betur en nokkuð annað, að hjer er um þarft og nauðsynlegt mál að ræða. Annars hefði ekki verið ráðist strax á frv., en jeg finn ekki ástæðu til að svara mótbárum, er þar voru færðar móti frv., fyr en ef þær koma fram hjer í hv. deild, því mestmegnis voru þær einber misskilningur.

Frv. gerir ráð fyrir því, að öllum, er það vilja, sje frjálst að stunda þennan atvinnurekstur, en jeg tel, og að því beinist frv., að til þessa starfs veljist hæfir menn, og það er hlægileg fjarstæða, sem haldið var fram í þessari blaðagrein, að af því að stjórnarráðið á að útnefna þá, þá verði það óhæfir menn. En í öðru lagi er það svo, að ef menn vilja vera miðlarar, þá eru menn háðir eftirliti stjórnarinnar.

Aðalætlunarverk miðlaranna er að starfa sem óvilhallir lögskipaðir milligöngumenn í þarfir atvinnurekstrar þess, er starfssvið þeirra nær til, og í útlöndum er það svo, að sami maður má ekki hafa önnur störf með höndum. Þó getur sami maður fengið leyfi til að starfa sem vörumiðlari og verðbrjefamiðlari; hins vegar fær skipamiðlari ekki að hafa á hendi önnur miðlarastörf, nema þegar alveg sjerstaklega stendur á, t. d. ef skip verður fyrir sjótjóni, þá fær skipamiðlari leyfi til að starfa sem vörumiðlari. Miðlararnir mega því ekki hafa önnur verslunarstörf á hendi en þau, sem þeir eru skipaðir til að gera, og víða sett tryggingarákvæði fyrir því, að þeir misbrúki ekki stöðu sína.

Starf skipamiðlara er aðallega að semja um skipaleigur, sjá um afgreiðslur skipsskjala við komu þeirra í höfn og burtför, greiða fyrir tollafgreiðslu, gangast fyrir nauðsynlegum ráðstöfunum vegna sjótjóns o. þ. h., og víðast hvar er starf þeirra skýrt afmarkað, þótt það sje hins vegar nokkuð mismunandi á hinum ýmsu stöðum.

Menn sjá best, hversu starfsemi skipamiðlaranna er talin ábyrgðarmikil, þegar þeir gæta að því, að víða eru miðlararnir skyldir að framkvæma störf sín sjálfir; einungis þegar um heilsubrest er að ræða, geta þeir fengið aðstoðarmann sinn settan til að gegna starfinu fyrir sig, þó því að eins, að sá maður verði að dómi hlutaðeigandi yfirvalda álitinn vel fær til að gegna starfinu. Það ber þó við, að skipamiðlarar, sem hafa umfangsmikið starf, geta fengið sjer skipaðan fastan fulltrúa, þegar reynslan hefir sýnt, að þeir þurfi iðulega að vera fjarverandi vegna skipaskaða og annara þess konar starfa.

Alt þetta miðar að hinu sama, að það sje ekki hyggilegt að setja engar skorður við því, hverjir hafi þetta stárf með höndum.

Loks skal jeg geta þess, að það er talið ókleift, að aðrir fáist við miðlarastörf en þeir, sem eru til þess skipaðir; eigi slíkt sjer stað, getur það varðað sektum, og getur jafnvel bakað þeim ábyrgð, sem verkið er unnið fyrir.

Skipamiðlarar eru skyldir til að færa löggilta gerðabók, og sje í hana rituð skýrsla um störf þau, er þeir framkvæma daglega, svo jafnan sje kostur á að fá afrit af gerðinni, ef á þarf að halda. Slík afrit geta haft talsverða þýðingu, sem sönnunargögn í málum, sem kunna að rísa út af skipasamningum og þess háttar. Enn fremur eru víðast hvar, þar sem skipamiðlarastarfsemi á sjer stað, settar reglur um það, hversu hátt gjald þeir megi taka fyrir störf sín, og alstaðar er þeim bannað að gefa óviðkomandi mönnum upplýsingar um störf, er þeir hafa int af hendi fyrir aðra, ef einhver hlutaðeigandi krefst, að þeim skuli haldið leyndum.

Jeg þykist nú ekki þurfa að þreyta hv. deild á lengri framsögu í máli þessu. Það hlýtur öllum, er um þetta hugsa, að vera ljóst, að það er full þörf á því, að þingið taki til alvarlegrar íhugunar, hvort ekki sje rjett og nauðsynlegt að koma starfsemi þessari í fastara horf en nú er.