22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

36. mál, stimpilgjald

Kristinn Daníelsson:

Jeg er samdóma háttv. nefnd um forsendur hennar, sem hún vísar til í nál. Nd.-nefndarinnar. En jeg skil ekki, hvernig hún getur komist að þeirri niðurstöðu, sem raun hefir á orðið.

Jeg lít svo á, að hún hefði átt að komast að þeirri niðurstöðu, að ekki væri hægt að samþ. frv. að svo komnu.

Allir eru á einu máli um það, að frv. þetta felur í sjer þungar kvaðir, og hinu er mjög hætt við, að árangurinn verði lítill. Það hækkar allmikið gjöldin á viðskiftum manna frá því, sem þau eru ákveðin í aukatekjulögunum.

En þegar þau voru endurskoðuð síðast, voru sumir liðir hækkaðir einmitt með tilliti til þess, að stimpilgjald var ekki til.

En við undirbúning og framkvæmdir laga þessara hlýtur að verða svo mikið umstang og tilkostnaður, að naumast munu tekjurnar verða því tilsvarandi, þegar þetta er orðið að hreinum stimpilgjaldslögum og búið er að sníða burt alt, sem ekki á þar heima.

Jeg verð að vísu að játa það, að auka þurfi tekjur landssjóðs, en nefndin hefði átt að velja til þess aðrar leiðir, og mundi henni hafa gefist nægur tími til þess eftir öllu útliti nú.

Það hefði t. d. mátt hækka aukatekjurnar til bráðabirgða, enda þótt vafasamt sje, að viðskifti manna þoli það.

Það mátti líka leggja hreint útflutningsgjald á, í staðinn fyrir stimpilgjald á farmskrár.

Jeg felst á það, að þörf sje fjárins, en jeg lít svo á, að fara mætti betri leiðir.

Jeg hefi ekki haft tíma til að rannsaka málið ítarlega og lesa frv. saman við aukatekjulögin.

En jeg vil benda á það, að t. d. þinglestrargjaldið er þegar orðið allhátt áður en þessu er við bætt.

Brtt. nefndarinnar álít jeg að sjeu yfirleitt til bóta, og mun jeg því greiða þeim atkv., ef til þess kemur, að frv. fái að ganga fram.

Við brtt. við 7. gr. frv., að í stað orðsins „framlengdur“ komi „endurnýjaður“, vil jeg gera þá athugasemd, að mjer fyndist rjettast, að það ákvæði væri felt alveg í burt.

Jeg lít svo á, að það geti ekki komið til mála að leggja þetta á framlengdan víxil.

Jeg hefi heyrt skírskotað til þess gjalds, sem bankarnir leggja á framlengingu víxla, en jeg lít svo á, að fremur væri ástæða til að draga úr því en að á það sje bætandi.

Um ártalið vil jeg geta þess, að jeg felli mig betur við 1919, því að jeg lít svo á, að með því sje það enn þá skýrar ákveðið, að hjer sje um bráðabirgðaráðstafanir einar að ræða.