18.05.1918
Efri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (1736)

56. mál, fólksráðningar

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Þó ræða hv. þm. Ísaf. (M. T.) væri alllöng og stórorð, þarf ekki að svara henni mörgum orðum.

Hv. þm. Ísaf. (M.T.) sagði, að frv. væri samanhangandi keðja — en mjer fanst ræða hans vera samanhangandi keðja af misskilningi eða öðru verra. Sem dæmi misskilnings. skal jeg geta þess, að hann hjelt, að fólksráðningarskrifstofan hjer í Rvík ætti að ráða verkafólk um land alt, svo enginn vinnuveitandi mætti sjálfur ráða vinnufólk sitt beint. í frv. segir „getur“, sem ræðumaður las og lagði út af eins og þar stæði „skal“. Jeg veit ekki, hvort þetta er útúrsnúningur eða misskilningur.

Hv. þm. (M. T.) sagði enn fremur, að sveitarstjórnirnar og fólksráðningarskrifstofan gætu skuldbundið fólkið til að vera hvar sem væri, án samþykkis þess. Þetta er samskonar fjarstæða. Svo er ætlast til, eins og frv. ber með sjer, að þeir, er atvinnu vilja fá með styrk fólksráðningarskrifstofunnar, fari fram á það við hana, og þá er hún ekki orðin annað en samningsaðili fyrir þá, samkvæmt umboði. Gamall verksmiðjueigandi ætti að vita það, að oft gerir annar maður samninga en sá, er hlut á að, og er það eftir umboði hans og jafngilt og hann sjálfur hefði gert.

Þá hjelt hv. þm. (M. T.), að hjer væri verið að ráðgera allsherjar sveitarflutning. Þetta er enn ein fjarstæðan, og nær vitanlega engri átt.

Eitt af því, sem hv. þm. (M. T.) hafði við frv. að athuga, var það, að ráðstafanavald landsstjórnarinnar væri bundið við samþykki sveitarstjórnar vinnuveitenda. Þetta er í sjálfu sjer rjettmæt athugasemd. En flestir þeirra, sem frv. hefir verið borið undir, hafa ekki viljað ganga lengra í því efni að fá landsstjórninni þvingunarvald í hendur en þar er gert.

Að öðru leyti finn jeg ekki ástæðu til að svara ræðu hv. þm. Ísaf. (M. T.), því ræða hans fór fyrir utan frv., og því óþarft að athuga hana frekar.