18.05.1918
Efri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (1737)

56. mál, fólksráðningar

Magnús Torfason:

Jeg þarf ekki að svara hv. frsm (S. F.) mörgum orðum, því hann var bersýnilega varnarþrota.

Það er sagt, að þessi fólksráðningarskrifstofa í Rvík eigi ekki að ráða fólk annarsstaðar. Þetta er sýnilega ekki rjett. Frv. segir, að landsstjórnin eigi að ráða mann til þess að stjórna þessu. Í frv. eru ekki ákveðin nein laun handa honum; það á landsstjórnin að gera. Þetta er alveg nýtt í sögunni og hlýtur að vera sprottið af því að maður sá á að hafa mikið vald og ráða fólk án samþykkis þess, nokkurskonar verkmanna-týranni. Það er því eðlilegt, að kaupið þurfi að vera mikið, því starfið hlýtur að verða víðtækt og vandasamt, svo ekki verður auðið að fá menn til að gegna því fyrir lítið gjald.

Jeg hefi ekki misskilið frv. svo, að atvinnuveitendur verði samkvæmt því skyldugir að snúa sjer til þessarar fólksráðningarskrifstofu; þeim er ekki bannað að leita sjer vinnufólks á annan hátt — og ekki þakka jeg hv. flutningsmönnum þá ívilnun. En ef frv. þetta verður að lögum, mun samt reyndin verða sú, að atvinnuveitendur verði, þó ekki sjeu þeir skyldir til, að snúa sjer til „skrif“stofunnar. Eins og jeg sagði, hljóta ummælin að eiga við atvinnurekendur eina; verkamennirnir eru hvergi nefndir. En jeg get vel trúað því, að hv. frsm. (S. F.) hafi með sjálfum sjer aldrei ætlað að meina verkafólki að leita sjer atvinnu.

Hv. frsm. (S. F.) sagði, að aldrei hafi verið tilætlunin, að annað fólk verði flutt á milli en það, sem er sjálfu sjer ráðandi. Hvað verður þá um börn þeirra, sem vinnu hafa leitað, og gamalmenni, sem eru þeim áhangandi? Á að skilja þau eftir? Ef svo er, er þetta alt miklu verri en jeg hafði nokkum tíma gert mjer í hugarlund.

Fyrir skömmu flutti hv. frsm. (S. F.) annað frv. hjer í deildinni, sem hann kvað vera gert af dyn kattarins og skeggi konunnar, og er mjer næst að halda, að þetta frv., er hann nú flytur, sje gert af því, er hann þá ekki nefndi, nefnilega fogls hráka. Er það ekki ósennilegt, því frv. þetta er fullkomið hrákasmíði.