22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

36. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er að eins stutt athugasemd.

Viðvíkjandi afgreiðslumönnunum er hjer ekki að eins átt við afgreiðslumenn skipa, sem fara eftir föstum áætlunum, heldur alla þá, er sjá um flutning á vörum úr skipum og í.

Athugasemdir háttv. 2. þm. G. K. (K. D.) voru flestar almenns eðlis og hefðu því átt frekar að koma við 1. umr.

En jeg skal taka það fram, að tekjuaukinn, sem leiðir af lögunum, er alls ekki svo lítill. jafnvel þótt farmskránum væri slept. Jeg geri ráð fyrir, að hann yrði alls ekki minni en 200 þús. krónur.

Umstang hlýtur auðvitað að verða talsvert, en þrátt fyrir það hefir samskonar lögum víða verið komið á.

Og jeg álít það alls ekki ranglátt, þótt gjöld þessi sjeu hækkuð nú.

Fasteignir hafa hækkað mjög í verði, og vitanlegt er, að gróði á húseignum hjer er mikill; mikið af gjöldum þessum mundi því ekki koma hart niður.

Um víxlana er það að segja, að það eru venjulega velmegandi menn, sem með stóru víxlana fara, og mundi gjaldið þar því lenda á breiðu baki.

En það er gefinn hlutur, að ekki er hægt að finna þann skattstofn, að hvergi þyki koma hart niður.

Jeg vona því, að frv. þetta fái að ganga fram, en sjálfsagt verða farmskrárnar dregnar út eins fljótt og hægt er.