22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (1742)

56. mál, fólksráðningar

Halldór Steinsson:

Það er að vísu leiðinlegt að verða að leggjast á móti bjargráðatilraunum þeirrar nefndar, sem kosin var til að fjalla um þau mál, en tilraunir hennar hafa verið svo úr garði gerðar, að jeg hefi ekki getað fallist á flestar þeirra.

Og sama er að segja um frv. þetta. Jeg hygg, að það muni ekki ná tilgangi þeim, sem því er ætlað. Jeg vildi leyfa mjer að að fara fáeinum orðum um 3. gr. þess aðallega, og var það aðallega fyrirspurn til hv. nefndar út af því, sem stendur í 2. gr. Hún byrjar svo: „Enn fremur heimilast landsstjórninni vald til að ráðstafa vinnufæru, en atvinnulausu og bjargarvana fólki, sem ekki verður ráðið á fólksráðningaskrifstofunni, eða með frjálsum samningum á annan hátt“. En þá er mjer spurn, hvernig á landsstjórnin að ráðstafa því fólki? Jeg lít svo á, að greinin verði að skiljast svo, sem hjer sje um fólk að ræða, sem ekki sje vinnufært, og eru þá tæpast aðrir vegir til en sveitarflutningur eða fjárframlög. Þá get jeg ekki sjeð, að krókaleiðir þessar sjeu heppilegri að neinu leyti heldur en að fólk þetta snúi sjer til viðkomandi sveitarstjórna, eins og verið hefir.

Í 3. gr. segir svo: „Hver sá, er verkafólks er vant, getur snúið sjer til hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða bæjarstjórnar, og þær síðan til fólksráðningaskrifstofunnar. Þetta er alt of flókin aðferð. Hvers vegna mega menn ekki snúa sjer beint til skrifstofunnar? Jeg get ekki sjeð, að nein önnur aðferð geti verið greiðari.

Í 6. gr. stendur, að hver sá, sem ráðstafað er samkvæmt 2. gr., skuli skoðaður af lækni og hafa frá honum vottorð um að vera ekki haldinn af næmum sjúkdómi. Þetta kann að vera góð tilhögun. En nú geta margir verið haldnir af næmum sjúkdómi, þótt á svo lágu stigi sje, að þeir sjeu vinnufærir eftir sem áður. Hvernig á þá skrifstofan að ráðstafa þeim mönnum öllum? Það get jeg ekki sjeð. Jeg held því, að frv. þetta nái ekki tilgangi sínum.

Hitt þykir mjer eðlilegra, að frjálsar skrifstofur væru settar á stofn í þessum tilgangi, eins og þegar hefir verið byrjað á, og þurfa þær ekki að koma landsstjórninni neitt við, nema hvað hún gæti brýnt það fyrir hreppsnefndum að leita til þeirra. Jeg get því ekki fylgt frv. þessu.