24.05.1918
Efri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (1748)

56. mál, fólksráðningar

Eggert Pálsson:

Jeg kann ekki við, að frv. þetta komi til atkv. án þess, að jeg segi skoðun mína á því. Frv. er þess vert, að ekki sje þagað um það. Jeg hefi reynt eftir mætti að gera mjer ljóst, hvort frv. myndi svara kostnaði, ef það yrði að lögum. Og jeg þori að segja, að það mundi tæplega verða. Jeg er hræddur um, að þessi fólksráðningaskrifstofa yrði lítið notuð, þó hún kæmist á stofn.

Þjóðfjelag vort er svo lítið, að menn vilja helst þekkja hvern annan, ef þeir ætla að gera samninga með sjer, og þó einkum, ef um vinnuveitendur og vinnufólk er að ræða. Menn vilja helst enga milligöngumenn, og síst mundu þeir snúa sjer til „skrifstofu“. Verkafólkið myndi reyna að snúa sjer til atvinnurekendanna sjálfra, eða þá einhverra milligöngumanna, sem það bæri einkar gott traust til. Sama mundi verða um atvinnuveitendurna. Skrifstofan yrði því sennilega til lítilla nota. Eins og jeg sagði, vilja menn, sem ætla að bindast samningum, hafa nokkur kynni hver af öðrum. En skrifstofuleiðin útilokar slík kynni, því svo er ákveðið í frv., að samningar, sem skrifstofan gerir, sjeu bindandi fyrir báða málsaðilja. Það myndi ekki síst verða til að hindra menn frá að nota skrifstofuna. En ef einhverjir yrðu samt sem áður til að nota hana, er hætt við, að það yrðu annars vegar þeir vinnuveitendur, sem jafnan eiga örðugt með fólkshald, og hins vegar verkafólk, sem á ilt með að fá atvinnu hjá þeim, sem þekkja það að afspurn. Harðdrægustu vinnuveitendur myndu þar mæta úrkastinu úr verkafólkinu. Og má að vissu leyti segja, að vel fari á því. En hins vegar er það ljóst, að atvinnufyrirtæki, hvort heldúr er til lands eða sjávar, sem rekið væri með eintómu úrkasti úr verkafólkinu, muni ekki svara kostnaði.

Viðvíkjandi hinu aðalatriði frv., að landsstjórninni sje veitt vald til að ráðstafa vinnulausu og bjargarvana fólki, hugsa jeg að seint eða aldrei mundi koma til framkvæmda. Þar fyrir er ekki fyrir að synja, að til bjargarvandræða geti dregið á næstunni. Nei. En það mundi aldrei til slíkra ráðstafana koma, af því hlutaðeigandi sveitarstjórnir myndu aldrei gefa leyfi til að flytja slíkt fólk á sína vegu. því ef til verulegra vandræða horfir, verða þær, sveitar sinnar vegna, að neita slíku, úr því að þær hafa vald til þess. En slíkt neitunarvald í þessu efni er þeim tvímælalaust veitt í frv. þessu. Og það gerir það að verkum, að til þeirrar ráðstöfunar á atvinnulausu og bjargarvana fólki, sem frv. talar um, getur aldrei komið.

Enn er kostnaðarhliðin á þessu máli. Kostnaðurinn við framkvæmdina gæti orðið drjúgur. Mann þyrfti til að veita skrifstofunni forstöðu, eins og tekið er fram í 1. gr. frv. En þar eru engin laun ákveðin. Má samt búast við þeim allháum. Sennilegt væri og að forstöðumaðurinn þyrfti einhverja aðstoð; ekki getur hann altaf verið viðlátinn. Þá er húsnæðið, sem þó er ekki minst á í frv. Það þyrfti að vera fremur vandað, og mundi það hleypa mjög fram kostnaðinum.

Af greindum ástæðum get jeg ekki greitt frv. atkv., þó jeg viti, að tilgangurinn með að bera það fram hafi verið góður.