24.05.1918
Efri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (1750)

56. mál, fólksráðningar

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Mjer er það mikið furðuefni, hvernig hv. þm. Ísaf. (M. T.) skilur frv. þetta. Hann virðist líta svo á, sem hjer sje verið að stofna til allsherjarfátækraflutninga, en það er þó hvergi tekið fram í frv., að önnur lög sjeu með því úr gildi numin, og til þess er alls ekki ætlast, að lög þessi nái á neinn hátt inn á svið fátækralaganna. í öðru lagi má benda á það, að framkvæmdir þessa ákvæðis í frv. eru bundnar við samþykki sveitarstjórna, og það ætti öllum að skiljast, að engin sveitarstjórn leyfir á sig ómagaflutning að nauðsynjalausu. Börn og gamalmenni munu því sitja í sinni sveit eftir sem áður. Tilgangurinn er því að eins sá, að vinnufæru fólki, sem ekki fær atvinnu í sínu hjeraði, megi ráðstafa þangað, sem það getur fengið atvinnu.

Viðvíkjandi því, hvort það sje sæmd eða vansæmd fyrir þessa hv. deild að samþykkja frv. þetta, þá lít jeg svo á, sem það sje henni til sóma að samþykkja það.