24.05.1918
Efri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (1751)

56. mál, fólksráðningar

Magnús Torfason:

Jeg get vel skilið það, að hugsunin í frv. hafi átt að vera sú, að landsstjórnin ætti að eins að taka við af sveitarstjórnum, en hjer stendur í gr.: „Enn fremur heimilast landsstjórninni vald til að ráðstafa vinnufæru en atvinnulausu og bjargarvana fólki.“ En það stendur hvergi, að stjórnin fái fyrst það vald, þegar sveitarstjórnir geta ekki lengur ráðstafað því. (S. F.: Mætti setja inn ákvæði um það). Það er nú um seinan. (S. F.: Mætti gera það í Nd., ef frv. fer þangað). Þetta er ákvæði, sem verður að miða við, og jeg get ekki hugsað mjer, að það verði framkvæmt án þess að það gripi inn á verksvið sveitarstjórnar. En sje átt við hitt, þá hefði þess átt að vera getið í einhverri gr. frv., að landsstjórninni veittist þá fyrst fje og heimild til að ráðstafa þessu fólki, þegar sveitarfjelögin þryti. En það er síður en svo, að það sje tekið fram. Hjer er að eins sagt, að samþykki sveitarstjórnar þurfi, sem fólkinu er ráðstafað til, og er þá gefið, að ekki er farið eftir samþykki venjulegra sveitarstjórnarvalda, sem fátækraflutningi ráða.

Jeg get ekki heldur sjeð, hvaða fólk er sveitarmatur, ef ekki það, sem er atvinnulaust og bjargarvana. Jeg lít svo á, að þeir, sem bæði eru fjelausir, matarlausir og atvinnulausir eigi ekki aðra kosti en sveitina. Jeg býst svo ekki við að þurfa að eyða fleiri orðum að frv. þessu.