22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

36. mál, stimpilgjald

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Þó að fram hafi komið raddir gegn þessu frv. hjer í háttv. deild, þá vona jeg samt, að frv. fái framgang. Það var líkt ástatt í Nd. Sumir höfðu þar ýmislegt að athuga við frv., en jafnframt hafði deildin glögt auga fyrir þörfinni á tekjuauka, og hann hlýtur líka að verða svo, að talsverðu munar, ef frv. verður samþykt.

Jeg vil eindregið hvetja háttv. deild til þess að samþykkja síðustu gr. frv. óbreytta, um að lögin skuli gilda til ársloka 1921, en ekki till. nefndarinnar, um að þau gildi að eins til 1919, því að fari svo ólíklega, að laganna verði ekki þörf á næsta þingi, þá má nema tímatakmarkið úr gildi þá. Ef til vill verður þá líka farmgjaldið tekið út úr og sett sem sjerstakt útflutningsgjald.