01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (1762)

56. mál, fólksráðningar

Bjarni Jónsson:

Mjer þótti vænt um margt af því, sem hv. síðasti ræðumaður (J. B.) sagði. Hann virtist þar ekki langt frá þeirri skoðun, sem jeg hefi haldið fram hvað eftir annað, að það væri ætíð varlegast að búast svo við, að það gæti komið fyrir, að landsmenn yrðu nauðulega staddir. Jeg hefi bent á, að ekki þyrfti annað en að skip þau, er landið hefir á að skipa, færust, yrðu numin hernámi eða glötuðust á einhvern hátt. Það eru þessi skip, sem eiga að færa að landinu vörur þær, er það fær með samningum við erlendar þjóðir. Færust nú þessi skip, áður en þau hefðu flutt til landsins vetrarforða, stæðu menn uppi bjargarlausir, og gæti þar orðið þau brögð að, að menn felli úr hungri.

Skal jeg nú ekki fjölyrða frekar um þetta, sem jeg hefi oft áður rætt, en snúa mjer að frv. í sambandi við þessa skoðun, er jeg nú lýsti.

Það er þá fyrst, að jeg tel slík frv. sem þessi eiga að gera ráð fyrir því, að menn noti sem best sumartímann, sem nú er byrjaður, til að rækta jörðina og afla af henni, líkt og farið var fram á með till. þeirri, er jeg flutti nú fyrir skemstu og hv. þm. gerðu mjer þann greiða að fella fyrir mjer. Þar til heyrir, að sjá bændum fyrir vinnukrafti. Fráfærur eru þeim mun sjaldgæfari, sem bændur eiga í meiru fólkshraki. Kvikfjeð er bústofn bænda, og það verður að vera sá stofn, er þjóðin lifir af, ef sjávarútvegur bregst og aðrar atvinnugreinir falla í auðn. Verður því að auka þessa atvinnugrein, kvikfjárræktina, og hlynna svo að henni, að hún geti haldið lífinu í þessari þjóð á komandi árum, ef illa fer. Jeg bið menn að gæta þess, að jeg er ekki að segja, að þetta verði. Jeg er engu að spá hjer um, en segi, að það liggi svo nærri, að þetta geti orðið, og enginn sá er búmaður, sem ekki býr sig undir að mæta áföllum. Og með hverju býr þjóðin sig undir það áfall, er nú nefndi jeg? Með því að auka búskap og hjálpa bændum til að fá verkafólk til að reka hann. En hvernig á að útvega fólk ? Með því, sem hjer er farið fram á í frv., að setja á stofn fólksráðningarskrifstofu í Reykjavík. En það verður seint um langan veg að spyrja sönn tíðindi. Það verður erfitt fyrir bændur vestan, norðan og austan að leita til Reykjavíkur upplýsinga um fólk eða ráðningar. En alstaðar á landinu eru kaupstaðir og þangað er styttra fyrir bændur að snúa sjer til ráðningamanna. Þess vegna væri rjettara að heimila stjórninni að setja upp fólksráðningaskrifstofur þar, sem tiltækilegt virðist úti um land, eða þó fremur, að fela bæjar- og sveitarfjelögum fólksráðninguna. En þó gæti það komið fyrir, eins og nú er í pottinn búið, að valdi þyrfti að beita, og þyrfti þá stjórnin að hafa lagaheimild til að skipa mönnum í vistir, en það er það fólk, sem bíður eftir kraftaverki, svo sem að síldarútvegur verði sem áður, enda þótt vitað sje, að slíkt geti ekki orðið. Það bíður svo og liggur uppi á sínu fólki allan sumartímann og er svo á nástrái þegar veturinn kemur. Því þyrfti stjórnin að hafa það í hendi sjer, að duga bæjar- og sveitarstjórnum í því, að koma þessu fólki í vistir, til að vinna fyrir framleiðsluna.

Fyrir því vildi jeg ekki leggja það til, eins og 2 aðrir hv. þm., að 2. gr. frv. sje numin burtu, heldur að frv. væri ekki nema 2. gr. Það er þarflaust nema 2. og 6. gr., sem þessir hv. þm. (J. B. og Þorst. J.) líka vilja fella burtu. Jeg teldi því nægilegt, að samþ. 2. gr. með nauðsynlegum breytingum.

Jeg skal nefna það um leið, úr því að jeg tala um 2. gr., að í henni er allundarleg nafnháttarmynd. Þar stendur: Þetta má því að eins ske, að stórfeld bjargarvandræði verði eða vofi yfir, o. s. frv. Mjer er það ókunnugt, að nokkur nafnháttur í íslensku máli endi á e. Held jeg, að þá væri betra að hafa ekki þetta orð um hönd nema hafa sömu reglu og um aðra nafnhætti og færa til samræmis. Yrði þá víst að færa það til samræmis við t. d. að sjea = sjá, og yrði það þá skjá. Annars eru til í íslensku önnur sagnorð, er setja mætti í stað orðskrípis þessa, sem komið er úr þýsku í dönsku og þaðan inn í íslenskuna. En í sambandi við setningu þá, er jeg las upp, verð jeg að leggja áherslu á, að þessar ráðstafanir eiga að vera til þess að forða vandræðum. Því að þegar stórfeld vandræði eru orðin, hver getur þá tekið við bjargarvana fólki? Það geta ekki bændur, heldur verða bæjar- og sveitarsjóðir að gera það. En hvernig á að forða því, að bjargarvandræði verði? Með því að rækta landið og færa það sjer sem best í nyt, eins og hæstv. forsætisráðherra benti oss á fyrir skemstu í ágætri ræðu. Þess vegna á að setja upp ráðningastofu nú þegar og ráða fólk nú, ekki að eins svo, að því verði lokið fyrir sláttinn, heldur nú þegar. Það er kominn tími til, og orðið heldur seint, að fara að erja jörðina og setja niður jarðepli. Þetta frv. hefði átt að vera tilbúið fyr, því að Íslendingar vita vel, hve nær þeir eiga að erja jörðina, svo að ávaxtar megi vænta. Þingið var kvatt saman svo snemma til þess, að yrði búið áður en bjargræðistíminn hófst.

Um 3. gr. þarf ekki að ræða. Hún má vera slík sem hún er, breytt í samræmi við 2. gr. Ekki sje jeg heldur, hvað er á móti 4. gr., þótt sumir vilji fella hana niður. Hún kann að vera ónýt grein. Það þýðir ekkert að vera að tala um, hve margt fólk sje orðið bjargavana. Eftir því á ekki að bíða.

Um 5. gr. þarf fátt að segja. Það getur vel verið rjett, ef stjórnin skyldar menn til að fara í vistir, að hún borgi ferðirnar, en þeir, sem við taka fólkinu, gætu líka borgað. En það er annað, sem vantar í þessi lög, og það nefndi hv. 1. þm. Reykv. (J. B.). En það er að skylda menn til að taka við þessum hjúum. Ef Íslendingar ætla að vera forsjálir og framsýnir og vera við því búnir, sem að gæti borið, þá verða allir bændur að búa ekki að eins fyrir sjálfa sig, heldur og alt landið og þjóðina. Þeir verða að stækka bú sín, heyja meira og fjölga skepnunum, ef fært er, til þess að auka stofninn svo, að landið geti bjargast við sitt í framtíðinni. Þetta verður að reikna út og skifta vinnukraftinum eftir því. Þetta er afarmikið vandaverk, og væri þar ekki nógur fólkskrafturinn einn, heldur og að hafa búskapareinvalda,eins og í Þýskalandi. Þar hafa þeir haft eina allsherjar matselju — karlkyns þó, — er skamtað hefir öllu landsfólkinu. Þannig hafa þeir mætt örðugleikunum, en ekki með atkvæðagreiðslum og ræðum á þingfundum, þar sem sitt sýnist hverjum. Heimild landsstjórnarinnar skyldi heimila að skipa mönnum í vist og skipa mönnum að taka hjú.

En hvað viðvíkur 6. gr., sem hv. flm. brtt. á þgskj. 261 vilja að falli burtu, þá tel jeg það ekki rjett. En hún á ekki sjerstaklega að eiga við þá, sem ráðnir eru samkvæmt 2. gr., því að þeir þurfa ekki að vera heilsulausari en hinir. En það ætti að skylda alla, sem í vist fara, að hafa læknisvottorð. Það er ekki gott í strjálbygðu landi að fá mann með illkynjaðan sjúkdóm inn á heimili, þar sem engin þekking er fyrir hendi nje önnur tök til að verjast. Það gæti orðið til þess, að alt fólk á bænum legðist í sama sjúkdómi. Hjer ætti því að vera í lögum, að hver sá maður, sem ræðst í vist, hafi læknisvottorð. Það er og merkilegt, að hjer eru engin lög um það, að menn skuli hafa meðmæli frá þeim, sem þeir voru fyr hjá. Verða menn því að renna blint í sjóinn, er þeir ráða sjer hjú, um heilsufar og annað. Mætti því gjarnan í þessi lög setja almenn ákvæði um það, að fólk, sem ræður sig í vist, sjerstaklega þar, sem örðugt er að ná í lækni, skuli hafa vottorð eða meðmæli frá þeim, er þeir hafa áður unnið hjá.

Jeg hefði talið betra, að hv. bjargráðanefnd hefði hugsað um þetta og breytt frv. í þá átt, er jeg nefndi. En hún gerir það þá líklega við 3. umr. Ef ekki, þá myndi jeg leita að þeim mönnum, er hefðu líka skoðun minni hjer um, hvort þeir vildu ekki koma með brtt. til 3. umr., því að nú er frv., að þessu leyti, verra en ekki, ef það verður samþykt.