01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (1764)

56. mál, fólksráðningar

Þorsteinn Jónsson:

Það, sem jeg hafði sjerstaklega að athuga við þetta frv., var það, að mjer fanst það ekki ganga nógu langt hvað það snerti að ráðstafa atvinnulausu fólki. En ef ekki væri hægt að fá þingið til að ganga lengra, þá álít jeg og meðflutningsmaður minn, hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), að þær greinar, sem við viljum láta fella burtu, hafi ekkert að þýða. Við hjeldum, að það væri ekki til neins að ganga lengra; það myndi ekki fást samþykki þingsins til þess að ráðstafa fólki, sem atvinnulaust væri, ef það hefði nóg fyrir sig að leggja. En ef hv. deild vill ganga svo langt, að ráðstafa atvinnulausu fólki, þótt það sje ekki bjargarvana, er ekki nennir að vinna, eða hefir ekki dáð í sjer til þess að útvega sjer atvinnu, þá er jeg þeirrar skoðunar, að það sje rjett, að þingið gangi þá leið, því að eins og tekið hefir verið fram áður, varðar þjóðfjelagið ekkert meira en að hver einstakur maður verði látinn vinna eitthvert það starf, sem að gagni má koma. En eins og ákvæði þessa frv. eru, um að ráðstafa því fólki, sem er bjargarvana, þá álít jeg, að of seint verði gripið í taumana, þótt þetta frv. verði samþ. Því að ef ætti að fara að framkvæma nokkuð eftir því, mundi það ekki verða fyr en í vetur, að fólkið yrði orðið svo bjargarvana, að það þyrfti að fara að ráðstafa því.

Af þessum ástæðum og þeim athugasemdum, sem fram eru komnar við frv., er jeg og hv. meðflutningsmaður minn (J. B.) til með að taka þessar brtt. aftur og vita hvort samkomulag fæst í nefndinni um aðalatriðin, því að tilgangur okkar var að fella burtu þessar greinar af því að við álítum þær þýðingarlausar, eins og frv. var úr garði gert. — En hvað till. á þgskj. 227 snertir, þá sje jeg enga ástæðu til annars en að nefndin geti fallist á hana.