01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (1765)

56. mál, fólksráðningar

Jörundur Brynjólfsson:

Það er að eins örstutt athugasemd út af ummælum hv. frsm. bjargráðanefndar (S. S.). Reyndar hefir hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) tekið það fram, er máli skifti. Þetta (um ákvæði 2. gr.) bar á góma í nefndinni, og virtist okkur þessi ákvæði vera gagnslítil, eins og þau eru í frv., ef þau væru til þess ætluð, að koma að nokkru liði. En aftur á móti virðist mjer, að skoðanir okkar flm. brtt. á þgskj. 261 og hv. þm. Dala. (B. J.) falli saman um, að nauðsynlegt sje, að landsstjórnin mætti ráðstafa atvinnulausu fólki í tíma. En samkvæmt 2. gr. frv., á þgskj. 207, hefir landsstjórnin ekki heimild til að beita þvingun við fólkið fyr en fullsýnt er, að yfir vofi hættulegur bjargarskortur, en það er ekki auðvelt að sjá slíkt fyrir, og þess vegna sýnist mjer, að í þeim efnum ætti stjórninni að vera fengið svo mikið vald, að hún þyrfti ekki að bíða eftir þeim skýlausu horfum. Þetta var það, sem kom okkur til að nema í burtu þessar greinar, vegna þess, að við vorum sannfærðir um, að þær eru, eins og þær eru orðaðar, því nær eða alveg gagnslausar.

Hv. frsm. (S. S.) drap á, að hann hefði ekki fylgst með því, sem jeg sagði. Það var von til þess, því að hann var ekki viðstaddur þegar jeg byrjaði ræðu mína, — en jeg ljet það álit mitt í ljós, að til þess, að frv. þetta kæmi að nokkrum notum, yrði að ganga miklu lengra, og það er mín skoðun, að alveg rjettmætt sje, að landsstjórnin hafi fult vald til að skipa fólki að vinna að þeim verkum, sem mest nauðsyn og gagn megi að verða. Með þeirri von, að hv. meiri hl. nefndarinnar komist á sömu skoðun, get jeg vel fallist á þau ummæli hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) að taka aftur brtt. við þessa umr. málsins.