01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (1766)

56. mál, fólksráðningar

Gísli Sveinsson:

Jeg vildi leyfa mjer að gera nokkrar athugasemdir við þetta mál, og ekki síst, ef það á að fara aftur til nefndarinnar. Mjer fór eins og hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar (S. S.), að jeg skildi í fyrstu ekki hvað hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) fór. Eftir því, sem lá í brtt., virtist það svo, sem hann og hv. meðflutnm. hans (Þorst. J.) vildi ekki hafa þessi ákvæði í frv. Síðar kom það í ljós, í ræðu hv. þm. (J. B.), að honum þótti frv. ekki nógu víðtækt. (J. B.: Hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) talaði um það). Já, en þá þegar skildist hver meiningin var, þegar hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hafði talað til fulls, og verð jeg að segja, að þá var rjetta leiðin vitanlega alt önnur en að fara að nema ákvæðin í burtu, sem sje heldur að breyta frv. En það getur vel verið, að það sje ekki kleift, svo að vel sje, og mjer finst þá ekki nema eðlilegt, þó að nokkrum hv. þm. sýnist það ekki álitlegt, að láta stjórnina, hversu góð sem hún væri, hafa slíka víðtæka heimild. Málið hefir líka fleiri hliðar. Það er ekki að eins, að landstjórnin eigi að hlaupa undir bagga með atvinnulausu fólki og bjargarvana, heldur á hún líka að koma því einhvern veginn fyrir, og þá verður hún að hafa heimild til að setja fólkið niður þar, sem henni gott þykir, ef ekki verður öðruvísi. Jeg er nú á því, að ekki sje ráðlegt að setja slíka heimild í lög, þó að svo ári sem nú, og margt sje ískyggilegt fram undan, því að þótt lýðurinn í Reykjavík eða annarsstaðar sje orðinn atvinnulaus, og búið að ráðstafa því fólki, sem viljugt vill fara, þá er ekki ráðlegt að láta landsstjórnina drífa fólk inn á sveitaheimili, sem ekkert brúk hafa fyrir það og kann ske vill ekkert með það hafa; það verður ekki affarasælt. Það verður að fara einhverjar skaplegri leiðir.

Mjer finst annars, að frv. fari nógu langt með heimild sinni í 2. gr., og að ekki sje ástæða til að skilja hana þannig, að það sje ekki heimilt fyrir stjórnina að taka í taumana fyr en allir eru bjargarvana. Mjer skilst, að í frv. sje heimild vinnulausu fólki, en það þarf að vera fyrir stjórnina til þess að ráðstafa atvinnufært, og það finst mjer líka verða að vera nokkurn veginn sjálfsagt skilyrði; því að ef fólkið er ekki vinnufært, er engin spurning um að ráðstafa því til vinnu, og ekki hægt að kúga menn í hjeruðum til að taka fólk, sem ekki er vinnufært.

Í öðru lagi er svo bjargarvana fólk. Því getur stjórnin að sjálfsögðu ráðstafað, ef það er að eins bjargarvana, en vinnufært, því ef það er ekki vinnufært, gilda alt aðrar reglur. Því skilst mjer, að með þessu frv. sje það í raun rjettri einungis meiningin að ráðstafa atvinnulausu fólki og láta það vinna þar, sem þörf er á vinnunni. Það gefur að skilja, að þetta verður að gerast eftir því, sem til hagar hjer á landi, og eftir því, sem frjálsræði þeirra stjórnarvalda, sem hjer eiga hlut að máli, krefur. Það má ekki reka fólkið með nauðung annars vegar upp í sveitirnar, svo og svo mikið af atvinnulausum lýð, því að það verður einmitt hlutverk viðkomandi sveitarstjórnar að ráðstafa fólkinu innan sveitarinnar, ef ekki gengur saman með vinnuveitendum þar í sveitinni og verkafólkinu. Menn verða að athuga það, að vel getur komið fyrir, að mjög margir verði atvinnulausir og heilsulausir, og svo í öðru lagi, að þeir, sem vilja vinna og eru atvinnulausir, geti ekki útvegað sjer hana vegna þess, að ekki eru fólksráðningastofur. En annað mál er það, að ráðstafa því fólki, sem ekki er hægt að sjá farborða; en þar dugir engin kúgun; eða að setja upp á bændur svo og svo margt fólk, sem enginn veit nema þurfi að framfæra blátt áfram á annara kostnað. Því verð jeg að ráða frá að fara lengra en gert er með þessum ákvæðum, sem hjer eru sett, og álít jeg þau nógu skýr til þess, að ráðstafá megi atvinnulausu fólki eftir þeim, og líka fólki, sem er bjargarvana, en það verður ætíð að vera ótvírætt skilyrði, að það sje vinnufært. Það gefur líka að skilja, að það nær ekki nokkurri átt að treysta landsstjórninni einni til þess, því að þótt hún væri öll af vilja gerð, gæti hún ekki gert það ein, svo að nokkur mynd yrði á því.

Jeg skal svo að lokum minnast á eitt atriði, en það er að eins orðabreyting. Það er hjer í 1. gr. frv. talað um fjelag, sem heiti Fiskiveiðafjelag Íslands; það er mjer vitanlega ekki til. Það heitir Fiskifjelag Íslands, sem líklega er átt hjer við. En þessu getur hv. nefnd breytt fyrir 3. umr.