01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (1767)

56. mál, fólksráðningar

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Síðasta athugasemd hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) mun vera á alveg rjettum rökum bygð. Fjelagið heitir Fiskifjelag Íslands; það er best að kannast við það. Að öðru leyti þakka jeg hv. þm. (G. Sv.) fyrir athugasemdir hans, sem voru mjög skýrar og málinu til stuðnings.

Viðvíkjandi þeirri athugasemd, sem jafnvel hefir komið fram meðal hv. þm., að samhliða því, að heimila stjórninni að ráðstafa atvinnulausu fólki, þá þurfi um leið að skylda sveitirnar og aðra hluta landsins til þess að taka á móti fólkinu. Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók það rjettilega fram, að þetta nær vitanlega ekki nokkurri átt. Nefndin hefir heldur ekki hugsað sjer að heimila stjórninni slíkt vald, enda engin ástæða til þess að gera það.

Það er nú mín skoðun, að nóg atvinna sje til fyrir atvinnulaust fólk í landinu, ef vel er leitað. Það er talið, að bændur hjer á landi sjeu um 6.600, þeir er búa á einu jarðarhundraði eða meiru. Vitanlega eru allmargir bændur í þessari tölu, sem búa á jörðum í sjóþorpum og við sjávarsíðuna, og koma nokkrir þeirra hjer til frádráttar. En margir þeirra bænda, er búa við sjávarsíðuna, að minsta kosti hjer við Faxaflóa, þurfa aukinn vinnukraft suma hluta ársins. Jeg býst þess vegna við, að af þessum 6.600 sje að minsta kosti 5.000, sem þurfi á meiri eða minni vinnukrafti að halda að vorinu og sumrinu, fram yfir fasta heimilismenn. Sumum nægir ein manneskja, en þeir eru þó fáir. Fjöldinn allur tekur 2—3 kaupahjú um sláttinn, og margir 4—6. Jeg held því, að ekki sje of mikið sagt, að þessir 5.000 bændur þurfi um 10.000 manns yfir sumarið, eða hver þeirra 2 hjú til jafnaðar.

Nú er það vitanlegt, að í bæjum og kauptúnum þurfa hvergi nærri allir vinnufærir menn að leita sjer atvinnu annarsstaðar, heldur hafa þeir hana þar á staðnum, sem þeir eiga heima. Og svo er það hjer í Reykjavík og víðar. Jeg hygg því, að flestu, ef ekki öllu, atvinnulausu fólki í bæjum og kauptúnum megi útvega atvinnu yfir vorið og sumarið, ef því er haganlega jafnað niður og sent þangað, sem atvinnu er að fá eða eitthvað er að gera, án þess að um nokkra þvingun þurfi að ræða. En hitt er satt, sem hjer hefir verið minst á, að þetta mál er alt of seint á ferðinni. Stjórnin hefði átt að byrja þingið með því að leggja slíkt frv. fyrir það, svo að þessi ráðningastarfsemi hefði getað hafist strax í vor, og mundi hún þá hafa getað komið að miklum notum.