22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

36. mál, stimpilgjald

Halldór Steinsson:

Jeg vildi að eins segja örfá orð út af ummælum hæstv. atvinnumálaráðherra og háttv. framsögumanns (M. T.) og um leið gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli.

Síðasta brtt. er í fylsta samræmi við álit nefndarinnar á þessu frv. yfir höfuð, því að henni er í raun og veru mjög óljúft að samþykkja frv. og hefir að eins gert það með tilliti til þess, hve hagur landssjóðs er bágborinn. En þetta ákvæði, að lögin gildi ekki lengur en til 31. desbr. 1919, bendir þó fremur til þess, að lögin eigi ekki að standa um aldur og æfi. Þess vegna vill nefndin hafa það.

Í raun og veru ætti ekki að vera stimpilgjald á farmskrám, og væri sú leið eðlilegri að ákveða til bráðabirgða útflutningsgjald með sjerstökum lögum. Þótt jeg yfirleitt sje andvígur útflutningsgjaldi á innlendum afurðum, þá lít jeg svo á, að hjá því verði tæplega komist á þessum tímum. Hins vegar legg jeg áherslu á, að slíkt gjald sje að eins ákveðið til bráðabirgða, hvort sem það er í stimpillögum eða með sjerstökum lögum, og get því ekki greitt frv. í heild sinni atkvæði, nema síðustu brtt. nefndarinnar nái fram að ganga.