10.06.1918
Neðri deild: 42. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (1772)

56. mál, fólksráðningar

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Þegar bjargráðanefndin hafði frv. þetta á þgskj. 295 fyrst til athugunar og yfirlits, þá komst hún að þeirri niðurstöðu, að ráða hv. deild til að samykkja það óbreytt. En það var ekki af því, að nefndin teldi frv. að öllu leyti gott og gallalaust. En hins vegar hafði hún ástæðu til að búast við, að þingi yrði slitið þá og þegar, og þar sem Ed. hafði afgreitt það í þessu formi, þá vildi bjargráðanefnd Nd. ekki tefja málið, og vildi því láta það taka sem minstan tíma, með því að samþykja það óbreytt. En við 2. umr. komu fram, frá ýmsum hv. þm., athugasemdir við frv., sem nefndin kannaðist við að hefðu við mikil rök að styðjast. Af þessu leiddi, að nefndin tók málið á ný til athugunar og flytur nú brtt. á þgskj.311. Í öðru lagi skal jeg minna á brtt. frá hv. þm. Dala. (B. J.), á þgskj. 308, og enn fremur brtt. við brtt. nefndarinnar, frá tveim hv. þm. í bjargráðanefnd, og er sú brtt. á þgskj. 312.

Að því er snertir brtt. nefndarinnar, þá eru þær aðallega því fólgnar að færa út eða auka heimild landsstjórnarinnar til að ráðstafa atvinnulausu fólki. 2. gr. frv., eins og hún er nú, er lagt til að falli burt og 3. gr. verði 2. gr. Síðan komi ný grein, er verði 3. gr., og ræðir um að ráðstafa vinnufæru fólki, „sem ekki verður ráðið til vinnu af fólksráðningastofunni nje með frjálsum samningum á annan hátt. Leggur nefndin til, að bæjar- og sveitarstjórnum veitist vald til að ráðstafa fólki, sem ekki fer í vist á annan hátt, „enda líkur til“, segir í greininni, „að það verði öðrum að byrði“. Þetta vilja tveir nefndarmanna strika burt, svo að greinin fái á sig skýlausari og hreinni blæ, þannig, að heimildin nái til alls þess fólks, sem ekki vill ráða sig af frjálsum vilja, hvort sem það hefir nokkuð fyrir sig að leggja eða ekki. Jeg skal játa það, að persónulega get jeg vel fallist á þessa brtt. hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.). Og nefndin gerir þetta alls ekki að neinu kappsmáli. En með því að fella þessi orð í burtu eru myndaðar hreinar línur. Býst jeg raunar við, að menn líti svo á, að ákvæðið sje töluvert nærgöngult, en það kemur ekkí frekar fram við þá efnaminni en hina. Hugsunin, sem liggur bak við brtt. og þessa gr., er sú, að allir eigi að vinna, hvort sem líkamlegar þarfir krefjast þess eða ekki og hvort sem menn hafa mikið eða lítið fyrir sig að leggja. Þótt þetta virðist hart í fljótu bragði, þá er það hið rjetta í þessu máli, eins og á stendur. Þess ber vel að gæta, að frv. er nokkurskonar dýrtíðarráðstöfun að þessu leyti.

Enn fremur er það brtt. nefndarinnar, að 4. gr. sje orðuð eins og þar segir, á þgskj. 311. Aðalinnihald hennar er það, að ef bæjar- eða sveitarstjórn getur ekki ráðstafað fólkinu samkvæmt 3. gr. og horfur eru ískyggilegar, þá skuli hún safna skýrslum um ástandið og síðan snúa sjer til landsstjórnarinnar, og er þá svo fyrir mælt, að landsstjórnin hafi vald til að skipa fyrir um flutning á þessu fólki og skipa því í vistir. Enn fremur er þar til tekið, að ef bæjar- eða sveitarstjórn gerir engar fullnægjandi ráðstafanir að því er atvinnulaust fólk snertir, þá hafi landsstjórnin heimild til, að undangenginni aðvörun, að beita valdi til að ráðstafa því í atvinnu.

Þetta er nú aðalbrtt. nefndarinnar, og býst jeg við, að um þær verði aðallega rætt, og ef skoðanir eru skiftar um málið, þá sje það einkum um þessi atriði.

Að því er snertir brtt. hv. þm. Dala. (B. J.), þá er þess að geta, að flestar brtt. hans eru, að meira eða minna leyti, teknar upp í brtt. nefndarinnar, að undanteknu þó sektarákvæðinu, og brtt. undir 4. lið, þar sem þessi hv. þm. (B. J.) leggur til, að ef stjórnin vill afstýra skorti, samkvæmt lögum þessum, skuli henni og heimilt að skipa mönnum hjú. Með öðrum orðum, þessi hv. þm. (B. J.) vill gera mönnum að skyldu að taka við því fólki, sem þannig er á sig komið. Jafnvel þótt þetta kunni nú að sýnast í samræmi við það, að skipa atvinnulausu fólki í vistir, getur nefndin þó ekki fallist á það að ganga svo langt. Bæði er það allhart aðgöngu, og nefndin álítur ekki þörf að skipa mönnum hjú, því að þegar alls er gætt, þá er ekki fleira iðjulaust fólk en atvinna er fyrir í landinu, ef fólkinu er jafnað rjett niður. Jeg þóttist leiða rök að því við aðra umr., í framsögunni, að þörfin fyrir fólkið að vorinu og sumrinu sje svo mikil úti um landið, að það er meira en nóg að gera fyrir alla þá í bæjunum og kauptúnunum, sem ekki geta fengið vinnu þar heima fyrir. Nefndin getur því ekki fallist á þessa till. hv. þm. Dala. (B. J.)

Að öðru leyti skal jeg geta þess, að nefndin hefir gert till. um smáformbreytingar. T. d. hefir hún leiðrjett nafnið á Fiskifjelagi Íslands, o. s. frv. Ákvæðin í 6. lið, um breytingu á 7. gr, eru í samræmi við fátækralögin.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að ræða þessar brtt. frekar. En þess vil jeg þegar láta getið, að með þessum brtt., og sjerstaklega ef brtt. á þgskj. 312 er samþ., þá eru hjer myndaðar hreinar línur í þessu fólksráðningarmáli, og má segja, að grundvallarhugsunin sje þessi gamla kenning: „Hver, sem ekki vill vinna, á heldur ekki mat að fá“. Hjer er miðað við það, að fólk, sem getur unnið, en vill ekki, sje látið vinna, án tillits til hvort því líkar betur eða ver. Með því er algerlega numinn af frv. sá „fátækrastimpill“, sem margir hafa virst hneykslast á. Jeg ætla nú ekki að gera þessar till. að kappsmáli, en hins ber að gæta, að nái þær ekki fram að ganga, er frv. búið að missa sinn kraft, og þá stendur á sama, hvort stjórninni er gefin heimild til að setja upp fólksráðningaskrifstofu eða ekki. Jeg læt mjer það liggja í ljettu rúmi. Hitt álít jeg miklu meira vert, að veita bæjar- og sveitarstjórnum heimild til að ráðstafa til vinnu því fólki, sem er atvinnulaust, annaðhvort af því, að það vill ekki vinna, en liggur svo á öðrum, eða lifir á eigin fje. Á þessum erfiðu tímum þurfa allir að leggja fram krafta sína; enginn má liggja á liði sínu. Allir verða að vinna, sem vetlingi geta valdið, hvort sem þeir eru æðri eða lægri, ríkir eða fátækir.