27.05.1918
Efri deild: 28. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (1788)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg þarf ekki að bæta miklu við það, sem jeg sagði um mál þetta við 1. umr. Hv. deild tók málinu þá vel, og vona jeg, að hún líti sömu augum á það enn.

Brtt. þær, sem komnar eru fram á þgskj. 199, frá nefndinni, eru ekki stórvægilegar. Við 1. gr. frv. er að eins orðabreyting, fært til betra máls. Þá er og lagt til, að aftan við 1. gr. bætist: „þó með því skilyrði, sem áskilið er í 5. gr. frv.“, en eftir þeirri gr. getur landsstjórnin tekið einkaleyfið í sínar hendur eftir 5 ár, þótt það sje veitt til 15 ára.

Brtt. við 5. gr. er gerð til þess að koma í Veg fyrir, að hægt sje að leggja þann skilning í þá gr., að kaupa eigi einkaleyfið; því auðvitað á ekki að kaupa það, heldur húsin og vjelarnar.

Vona jeg, að hv. deild finni ekkert athugavert við frv. þetta, sem að áliti landbúnaðarnefndar hefir inni að halda miklu strangari skilyrði fyrir einkaleyfinu en áður hefir tíðkast í þeim sökum, og hv. Alþingi hefir þó samþykt. Jeg leyfi mjer því að vænta þess, að frv. verði samþ., ásamt brtt. nefndarinnar.