22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

36. mál, stimpilgjald

Kristinn Daníelsson:

Jeg vildi gjarnan biðja háttv. frsm. (M. T.) afsökunar á því, að jeg gleymdi að taka fram áðan, að jeg ætlaði ekki að saka háttv. nefnd þessarar deildar að eins, því að mjer fanst í raun og veru sama ósamræmið eiga sjer stað hjá báðum nefndunum, — bæði í Ed. og Nd., — í þessu máli. Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, að jeg vildi álíta lítinn tekjuauka að stimpilfrv., þá er það ekki nákvæmt. Jeg neitaði ekki, að nokkur tekjuauki mundi fást með því, en jeg vildi halda fram, að sá tekjuauki kæmi á ýmsan hátt ranglátlega niður á mönnum. Tökum t. d. útgerðarmanninn með hinum þungu kvöðum, sem á honum hvíla nú, þar sem hann verður að liggja með rentulaust „kapital“, svo sem salt, tunnur o. fl., og þetta hefir neytt hann til að taka háa víxla. Setjum svo, að hann taki 100.000 kr. víxil. Samkvæmt ákvæði frv. kostar það 100 kr. að stimpla víxilinn; gerum svo ráð fyrir, að trygging fyrir víxlinum þurfi að þinglesa í tveimur þinghám, það kostar 102 kr. í hvorri eða 204 kr.; auk þessa verður stimpilgjaldið af sjálfu veðakuldabrjefinu ½% af verðhæðinni, samkvæmt frv., eða 500 kr. í þessu tilfelli. Það kostar m. ö. o. 804 kr. að fá víxilinn, fyrir utan alt rentugjald og rentutap.

Alt þetta finst mjer þurfa mjög vel að athugast og ekki vonlaust um, að háttv. nefnd geti athugað frv. enn þá og gert umbætur á því, en eins og það er nú álít jeg ófært að samþykkja það.