29.05.1918
Efri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (1792)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Magnús Torfason:

Jeg stend að eins upp til þess að skýra hvers vegna brtt. mínar, á þgskj. 246, eru fram komnar.

Eins og sjá má á frv., er einkaleyfið þar miðað við nafn. Nú hafa slík einkaleyfi verið veitt áður, og það komið fyrir að þau hafa alls ekki verið notuð. En takist nú ekki þessum manni að koma fyrirtækinu á stað, þá getur þó svo farið, að aðrir vilja reyna það, og mundi þá þurfa ný lög til að leyfa það, ef einkaleyfið er miðað við nafn. En ekki ber að skilja þetta svo, að jeg álíti ekki að þessi maður eigi að ganga á undan eða fjelag það, sem hann stendur í sambandi við; því að mjer er það kunnugt, að hjer standa kraftar á bak við, sem eru þess megnugir, að hrinda fyrirtækinu af stað, kraftar, sem sennilega munu gera það bráðlega.

Brtt. 2. hefi jeg komið fram með af því, að mjer þótti lefið of langt. Ef fyrirtæki þetta hepnaðist vel, gæti það haft verð af framleiðendum kjöts, og ef arðurinn yrði mikill, ætti leyfistíminn að vera nógu langur 10 ár, frá því er leyfið er veitt, en ekki frá því er farið er að nota það. Auk þess mundi sú breyting herða á því, að byrjað yrði sem fyrst.

Brtt. 3. er til þess, að landið þurfi ekki að kaupa vjelar og áhöld eftir „spekulationsverði“, heldur sannvirði; en þar með er meint það, sem hús og áhöld eru verð í sjálfu sjer, án tillits til staðarins, sem bygt hefir verið á. En hjer er það athugavert, að ekki er getið um grunninn. Það hefir komið fyrir fyr, og er frægt af sögunni, að menn hafa keypt hús án grunnsins, en það mun ekki vera meining frv., að slíkt sje gert hjer, og ætti það að vera nóg að taka það fram hjer í þessari hv. deild.

Jeg hefi svo ekki fleira að athuga við frv. þetta, en lít svo á, að rjett sje að styðja fyrirtækið, og vona því, að frv. verði samþ. með þessum brtt.