22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

36. mál, stimpilgjald

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg get ekki sjeð, að brtt. háttv. nefndar sjeu þess eðlis, að nokkrar verulegar breytingar til bóta verði á frv., þó að þær verði samþyktar: hygg svipaða niðurstöðu hvort sem verður. Hún hefir ekki gert sjer far um að taka tillit til þeirra brtt., sem gert var ráð fyrir 1. umr., og þykir mjer það miður. Það er því að eins síðasta brtt. nefndarinnar, sem jeg tel til bóta, og mun jeg greiða henni atkvæði, en hinum ekki. En jeg vildi að eins beina einni fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra. Samkvæmt frv. eiga farmskrár að stimplast með 1% af verðhæðinni. En hefir hæstv. stjórn athugað það, að farmskrárnar eru fleiri en ein, að af þeim eru gefin út 4 eintök í hvert sinn? Og hafi hún athugað þetta, sem jeg geri ráð fyrir, er þá meiningin, að eigi að stimpla þær allar ? Og ef svo er ekki, hverja þeirra á þá að stimpla? Er það farmskráin, sem sýslumaður á að fá, eða sú, sem jeg held eftir, eða skipstjórans, eða þá sú, sem jeg sendi til hlutaðeigandi manns, sem vörurnar eiga að fara til? Um þetta er nauðsynlegt að vita skýrt og glögt.