14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (1801)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Frsm. (Einar Árnason):

Þetta frv. er ekki nýr gestur hjer í deildinni. Það er að miklu samhljóða frv. um vjelþurkun á kjöti, sem samþ. var í þessari hv. deild á síðasta þingi. En sökum þess, hve frv. kom seint fram á þinginu, þá dagaði það uppi í Ed. Munurinn á því frv. og þessu, sem nú er komið frá hv. Ed., er aðallega sá, að þá var veiting einkaleyfisins bundin við nafn Þorkels Clementz, en nú er hún ekki nafnbundin, og einkaleyfistíminn er nú ákveðinn 10 ár, í stað 15 í fyrra frv. Þessar breytingar ættu að gera frv. aðgengilegra fyrir þá, sem voru því andvígir á síðasta þingi og þótti þá sjerstaklega varhugavert að aðhyllast frv. fyrir það, hve einkaleyfistíminn var ákveðinn langur.

Eins og kunnugt er, er kjöt ekki flutt út úr landinu öðruvísi en saltað; flyst það aðallega til Danmerkur og lítið eitt til Noregs. Nú er það vitanlegt, að í þessum löndum er líka framleitt kjöt, ekki að eins til heimanotkunar, heldur einnig til útflutnings. Í þessum löndum er því okkar kjöt ekki keypt nema vegna þess, að það fæst fyrir lægra verð en þessar þjóðir fá fyrir kjöt sitt á erlendum markaði. Markaðurinn fyrir okkar kjöt er því ærið takmarkaður. Við höfum orðið að sætta okkur við þennan markað um langt tímaskeið, vegna þess að við höfum ekki haft aðstöðu til að flytja kjötið út kælt eða fryst, svo við gætum notað þann mikla markað, sem er í Englandi, fyrir nýtt kjöt. — Jeg er hræddur um, að það sje ekki orðið fyllilega ljóst fyrir þeim hv. þm., sem eru mótfallnir þessu frv. hjer í þessari hv. deild, hve óheppilegt það hefir verið fyrir íslenska landbúnaðinn að hafa svo einhliða meðferð á kjötinu. Sjerstaklega er þetta þó óheppilegt síðan við neyddumst til að gera samning við Breta um kjötsöluna. Nú er það álit fróðra manna, að við stöndum ekki vel að vígi til að flytja út nýtt kjöt og keppa við Ameríku- og Ástralíukjötið á enska markaðinum, bæði vegna slæmrar aðstöðu innanlands, og ekki síst vegna þess, að framleiðsla á kjöti er langtum ódýrari í þeim löndum, en hjá okkur. Þó nú hægt sje að sanna það, að okkar kjöt sje betra en kjöt frá þessum löndum, þá mun reynast erfitt að telja neytendunum trú um, að betra sje að kaupa okkar kjöt hærra verði. Það myndi kosta bæði langan tíma og mikla peninga að sannfæra þá í þessu efni.

Á síðasta þingi var það borið fram, sem andmæli gegn frv., að óþarft væri að veita nokkrum manni eða fjelagi einkaleyfi til að koma þessari aðferð á; hún mundi komast á án þess. En jeg verð að halda því gagnstæða fram. Hjer er um nýja uppfyndingu að ræða, sem er eign einstakra manna. Þessa eign sína meta þeir til peninga og láta hana ekki af hendi, nema eitthvað komi í staðinn. Til þess að leggja út í að framkvæma þessa þurkunaraðferð, vilja þeir fá einkaleyfi á framkvæmdinni. Hún hefir mikinn kostnað í för með sjer, en eftirtekjan hins vegar óviss, þar sem um óreynda vöru er að ræða á markaðinum. Það er því ekki nema eðlilegt, að þeir, sem haft hafa fyrirhöfnina við að finna upp aðferðina, vilji tryggja sig gegn því, að einn eða annar, sem komist gæti á snoðir um hana, færi að keppa við þá.

Ef einkaleyfi verður veitt, þá hefir landið um leið fengið eignarhald á þessari verkunaraðferð. Að öðrum kosti getur fjelagið snúið sjer eitthvað annað og fengið einkaleyfi í einhverju öðru landi. Þá færi íslenska kjötið varhluta af þessari verkunaraðferð um nokkurt árabil, og ættu þá aðrar þjóðir enn hægra með að bola því burt af markaðinum.

Landbúnaðarnefndin lítur svo á, að engin hætta geti stafað af því að veita þetta einkaleyfi, þar sem landið getur tekið alt í sínar hendur eftir stuttan tíma. Hins vegar mælir það með því, að rjett og sjálfsagt virðist að láta einkis ófreistað til að bæta markaðinn fyrir þessa vörutegund. Þingi og stjórn ber að styðja að því að gera hana sem vandaðasta og verðmesta að unt er.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Jeg vona að hv. deild taki því vel, eins og þegar það var hjer til meðferðar síðast.