14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (1802)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Bened. Sveinsson:

Hv. frsm. (E. Árna.) sagði, að þetta frv. væri ekki nýr gestur, því það hefði legið hjer fyrir deildinni í fyrra. Það er satt, að þetta mál er ekki nýr gestur, en engu ljúfari er hann fyrir því. Jeg get ekki annað sagt en að þetta sje ótrúlega leiður gestur, sem verið er að leiða hjer inn í þingið hvað eftir annað, og mig undrar stórlega, hvernig hv. landbúnaðarnefnd hefir getað látið snúa á sig. Á nál. er nú ekki mikið að græða af röksemdum, málinu til stuðnings. Það skýrir að eins frá því, að nefndin hafi athugað málið, og dregur þá ályktun af athugun sinni, að rjett sje að samþykkja frv. óbreytt. Nú hefir hv. frsm. (E. Árna.) gefið gleggri grein fyrir þeim ástæðum, sem nefndin byggir á þá ályktun að leggja til, að málið fái fram að ganga.

Áður hafa hjer á landiverið veitt tvenn einkaleyfi til að framleiða vörutegundir á landi hjer, annað til þess að vinna salt úr sjó, en hitt til þess að vinna járnsand úr botni Hjeraðsflóa. Nú getur það orkað tvímælis, hvort rjett hafi verið að veita þessi einkaleyfi. Þó er þetta einkaleyfi, sem hjer er farið fram á, alt annars eðlis. Þó einstöku fjelagi væri heimilað að vinna járnsand úr botni Hjeraðsflóa, þá gat það ekki teflt atvinnu landsmanna í neina tvísýnu. Sama er að segja um það, að vinna salt úr sjó. þessi fyrirtæki gátu hvorugt að nokkru ráði snert atvinnuvegi landsins. Aftur á hinn bóginn var töluverður hagur í vændum fyrir landið, þar sem þau fjelög voru skuldbundin til að greiða hátt gjald í landssjóð af framleiðslunni, ef nokkur hefði orðið. En hjer er alt öðru máli að gegna. Hjer er tekin önnur höfuðvörutegund landsins, og ætlast er til, að þingið selji í hendur einstökum mönnum sjerstaka meðferð á henni til útflutnings. Auk þess er mjer ekki kunnugt um, að neitt liggi fyrir, sem sýni, að hjer sje um annað en hjegóma að ræða. Hjer hafa engar skýrslur verið lagðar fram um það, að þessi verkunaraðferð sje komin á það stig, að hægt sje að reiða sig á, að hún sje nothæf. Og þó kjöt sje vjelþurkað einhversstaðar suður í löndum, þá er ekki þar með sagt, að hún sje fremur eign eins en annars, sú aðferð, sem við það er höfð. Það er heldur alls ekki sannað, að ekki geti verið til fleiri aðferðir en ein til þessarar verkunar. Það væri broslegt, ef Alþingi Íslendinga færi að fela stjórninni heimild til að veita þannig lagað einkaleyfi, sem eitthvert fúskarafjelag sækir um, án þess að nokkur trygging sje fyrir því, að ekki sjeu til aðrar aðferðir, sem geti reynst jafngóðar eða betri. Eða værum vjer nokkru bættari, ef aðrar þjóðir gætu haft aðrar aðferðir til kjötþurkunar, sem ef til vill reyndust fult eins vel? — Jeg hefi reyndar heyrt því haldið fram, og meira að segja sjeð það í blöðum, að nafnið á þessari vörutegund mundi verða bundið við Ísland, ef fyrstu tilraunirnar til að framleiða hana væru gerðar hjer á landi. En þetta er ekki til annars en að blekkja menn. Þegar farið er að selja vöruna frá öðrum löndum, þá stendur ekkert land öðru betur á markaðinum, nema því takist að gera vöruna betri eða ódýrari en annarsstaðar. Ef á annað borð er hægt að vjelþurka kjöt, eins og hægt er að vjelþurka fisk, þá er líklegt, að hægt sje að hafa til þess margar aðferðir, og er sjálfsagt að hver fái að hafa sína aðferð, sem á annað borð vill leggja út í það að verka kjöt á þennan hátt.

Flm. telja æskilegt að koma á kjötþurkun til þess að fá betri markað fyrir kjötið. En ef þessi verkunaraðferð skyldi ryðja sjer til rúms á skömmum tíma og vera jafnvænleg og þeir ætla, þá hlyti það að verða til tjóns, að markaðurinn væri í eins manns höndum, og þetta fjelag mætti ráða yfir verðinu á kjötinu í 10 ár. Það mundi geta náð undir sig allri kjötverslun í landinu, því að það gæti staðið sig við að bjóða lítið eitt hærra fyrir kjötið en aðrir, sem kaupa það til að verka það eftir eldri aðferðinni. Annað þyrfti ekki til þess, að fjelagið gæti sölsað undir sig alt kjötið og setið eitt með ágóðann af þessari nýju verkunaraðferð.

Það getur því ekki orðið til neins skaða, þó neitað sje um þetta einkaleyfi. Engum getur dottið í hug, að það verði til að flýta fyrir því, að ný verkunaraðferð finnist í heiminum, þótt Alþingi Íslendinga samþykki, að einhverju hálfdönsku fjelagi sje veitt heimild til að ná undir sig því kjöti, sem framleitt er á Íslandi. Heimurinn mun finna upp aðferðina án þess.

Á það mætti benda, að á síðustu 10 árum hafa komið upp nýjar aðferðir til hagnýtingar ýmislegrar vöru; t. d. að vjelþurka fisk og vinna mjöl og lýsi úr síld. Ef einhver hefði komið til Alþingis fyrir 10 árum og sagt: „Jeg skal kenna Íslendingum nýja aðferð til að nota betur síldina og verka fiskinn betur en þið getið nú, en jeg verð að fá einkaleyfi á aðferðinni“, þá virðist mega ráða það af þeim viðtökum, sem þetta frv. fjekk hjer í deildinni í fyrra, að slíkt einkaleyfi mundi hafa fengist. Ekki hefði verið mikill vandi að telja núverandi þingmönnum trú um, að þessi nýja aðferð gæti orðið gagnleg fyrir atvinnuvegina. En hefðum vjer verið hótinu bættari fyrir því, þótt slíkt einkaleyfi hefði verið veitt? — Nú getur hver kaupmaður og hver útgerðarmaður, sem vill verka sinn fisk, þurkað hann með vjelum. Hefði það á nokkurn hátt verið betra fyrir hina íslensku þjóð, þó einkaleyfi hefði verið veitt á þessari verkunaraðferð? Jeg get ekki skilið það.

Sama er að segja um síldarverksmiðjurnar. Það hefði mátt segja margt fallegt um það, hve mikils virði það væri að vinna mjöl og lýsi úr síldinni, í stað þess að láta hana liggja í stórum dyngjum norður á Siglufirði, morkna í sólskininu og verða ónýta. En hefði það verið til gagns fyrir þjóðina, ef einkaleyfi hefði verið veitt þessum síldariðnaði? Hjer er alveg um samskonar einkaleyfi að ræða. Það er ekkert meiri galdur að þurka kjöt en að þurka fisk, og engin ástæða er til að efast um, að heimurinn finni upp einhverjar aðferðir til þess, sem frjáls notkun verður á, nema þingið fari að binda hendur þjóðarinnar fyrirfram.

Ef hjer væri að ræða um sjerstakar vjelar eða sjerstakan útbúnað til kjötþurkunar, þá væri sjálfsagt, að sá, sem hefði fundið þær upp, fengi „patent“ á þeim vjelum. En hjer er ekki farið fram á neitt þesskonar, heldur er farið fram á einkaleyfi til að verka kjöt á þennan hátt og flytja það út. Slíkt verður ekki til þess að hækka verð á íslensku kjöti, eins og nefndin hefir ætlað, heldur er hjer verið að leggja gildru fyrir grunnhyggni þingsins.

Auk þess eru ýmsir gallar á frv. Í 4. gr. er t. d. tekið fram, að ekki megi leggja neitt gjald á vöruna, annað en það, sem tekið er fram í 3. gr. Eftir því á stimpilgjald eigi að koma til greina. En þetta og því um líkt eru aukaatriði, sem ekki er vert að tala um. Jeg vona, að hv. deild gangi aldrei inn á að samþykkja þetta frv., svo gagnslaus gallagripur sem það er.