14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (1808)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg lýsti áliti mínu á þessu frv. í fyrra og get því verið stuttorður. Jeg vildi að eins leyfa mjer að benda á, að það lítur svo út, að þeir, sem sömdu frv. þetta, hafi ekki verið alveg vissir um það, til hvers einkarjettur þessi er veittur. Það er sagt í 1. gr., að einkarjetturinn sje til að vjelþurka kjöt, en eftir 5. gr. er það ótvírætt einkaleyfi til útflutnings á vjelþurkuðu kjöti. Jeg hygg, að það sje meiningin, að enginn annar en sá, sem vjelþurkar kjötið, geti haft ráð á útflutningi þess. En þótt þessi sje hugsunin, kemur hún samt mjög ógreinilega fram, svo að úr þessu hvorttveggja verður hálfgerður ruglingur.

Þá er og dálítið spursmál, hvernig reikna á þetta 5 ára bil þangað til leyfishafi tekur að flytja út þurkað kjöt. Í raun og veru er og sama að segja um 2. gr., þar sem Stendur „innan 3 ára“. Frá hvaða tíma mega þessi 3 ár líða? Er það frá því að landsstjórnin veitti leyfið, eða frá því að lögin gengu í gildi? Jeg held, að þetta hafi ekki verið alveg ljóst fyrir hv. nefnd, sem flutti frv., og þyrfti því að ákveða það nánar.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að ræða málið. Jeg býst við, að það hafi verið fullrætt í fyrra. Jeg hefi ekki breytt skoðun um þetta frv., fremur en þau tvö einkaleyfi, sem áður hafa verið veitt. Sýnast þau hafa orðið þinginu síður en ekki til sóma, og sje jeg því ekki, að vert sje að halda áfram á þessari braut. Jeg hefði álitið, að í frv. ætti að minsta kosti að setja, að ef leyfið yrði veitt, skyldi leyfishafi borga nokkra fjárhæð til tryggingar því, að þetta reynist ekki gabb eitt. Það gæti verið hægt að verja, en ekki hitt, að kasta einkaleyfum svo að segja út í vindinn. Og jeg get bætt því við, að jeg veit ekki til, að neinn sje umsækjandi um leyfið.