14.06.1918
Neðri deild: 49. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (1810)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg þarf ekki að svara hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), því að þótt hann talaði langt mál, þá kom ekkert nýtt fram í ræðu hans. Hann var enn að bera saman þurkun á kjöti og fiski. Jeg tók það fram áðan, að hjer væri mjög ólíkt ástatt, þar sem enginn markaður er til fyrir þurkað kjöt. Vil jeg í því sambandi benda á eitt dæmi, sem liggur mjög nærri okkur. Það voru nú fyrir skömmu sendir hestar til Ameríku, í því skyni að reyna að opna þar nýjan markað fyrir íslenska hesta. — Reynslan er öllum kunn. Fyrir hestana fjekst lítið sem ekkert verð, svo skaðinn varð töluvert mikill á þessari tilraun. Þetta er ein bending í þá átt, hversu mjög einkaleyfishafarnir tefla á tvær hættur.

Þá gat hv. þm. (B. Sv.) þess, að undarlegt mætti heita, ef þetta yrði ekki reynt eða notað annarsstaðar. Það er langt frá því, að svo verði ekki, því að auðvitað er, að ef einkaleyfið fæst ekki hjer, verður reynt annarsstaðar, og mjer kunnugt um, að stjórnir annara ríkja hafa þegar leitað samninga við þessa menn, til þess að fá þetta í framkvæmd hjá sjer.

Þá voru það nokkur orð út af athugasemd hæstv. forsætisráðherra. Hann gat þess, að ýmislegt væri óljóst í frv.; það væri t. d. ekki ákveðið, hvort einkaleyfið ætti að ná bæði til þurkunar og útflutnings á kjötinu. Jeg get lýst yfir því, að það er ekki tilætlunin, samkv. 1. gr., að einkaleyfið sje til útflutnings á kjötinu, en skal hins vegar taka það fram, að orðalag 5. gr. getur orkað tvímælis um þetta.

Þá fanst hæstv. forsætisráðherra ekki vel ljóst í frv., við hvað ætti að miða þriggja ára tímatakmarkið; hvort telja ætti frá því að leyfið var veitt, eða frá því að lögin gengu í gildi. Hjer getur ekki verið um að villast, að átt er við þann tíma, frá því leyfið er veitt. Það kemur alls ekki málinu við, hve nær lögin hafa öðlast gildi. Hjer er svo skýrt að orði kveðið í frv., að ekki er um að villast. Þessi aðfinsla getur því ekki komið til mála.

Það er þá að eins um breytingu á 5. gr. að ræða, og býst jeg við, að nefndin sje fús til að breyta orðalagi hennar í samræmi við það, sem fram kemur í umr. í dag, til 3. umr. Jeg sje því enga ástæðu til, þar sem um svo lítið er að gera, að taka málið nú út af dagskrá.