03.07.1918
Neðri deild: 62. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (1813)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Frsm. (Einar Árnason):

Við 2. umr. þessa máls var bent á, að ósamræmi væri milli orðalagsins á 1. og 5. gr. frv., þar sem 5. gr. virtist benda til þess, að einkaleyfið ætti einnig að ná til útflutnings á kjöti. Í tilefni af þessu hefir landbúnaðarnefndin komið fram með brtt., á þgskj 417; á sú brtt. að taka af öll tvímæli um það, að hjer sje ekki um neitt einkaleyfi til útflutnings að ræða, heldur að eins einkaleyfi til kjötþurkunar, eins og fyrirsögn frv. bendir til. Enn fremur vill nefndin láta þess getið, að gefnu tilefni, að hún telur sjálfsagt, að stimpilgjald verði greitt af farmskírteinum, um vjelþurkað kjöt.

Nú með því að málið hefir verið ítarlega athugað í nefndinni og miklar umr. urðu um það hjer í deildinni um daginn, þá býst jeg ekki við, að það græði mikið á löngum umr. nú, og ætla því ekki að svo komnu, að fara fleiri orðum um það.