03.07.1918
Neðri deild: 62. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (1816)

66. mál, þurrkun kjöts með vélarafli

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefi nú látið þetta mál fram að þessu afskiftalaust, og skal ekki fara mörgum orðum um það. Það er auðvitað, að þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er mesti gallagripur. Það er búið að benda á svo marga galla á því, að ekki þarf að fara frekar út í það. En mjer sýnist málið liggja þannig fyrir, að ógerningur sje að samþykkja frv. Það vantar allar upplýsingar um, hvaða aðferð á að nota við þurkun kjötsins, og hvaða líkur eru fyrir því, að not verði að þessu. Og mjer finst, að þegar á að gefa út lög um eins þýðingarmikil mál sem þetta, þá þurfi nákvæmar upplýsingar að vera til staðar. Held jeg því, að það sje enginn skaði skeður, þó að beðið sje með þetta mál, þar til einhverjar frekari upplýsingar liggja fyrir. Jeg hefi því hugsað mjer að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um það, hvar komið er undirbúningi þessarar nýju kjötþurkunaraðferðar, telur deildin ekki gerlegt að ráða málinu til lykta að þessu sinni, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.