13.07.1918
Efri deild: 65. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (1824)

108. mál, húsaleiga í Reykjavík

Guðjón Guðlaugsson:

Allsherjarnefnd hefir haft frv. þetta til umsagnar, og skal jeg með nokkrum orðum gera grein fyrir skoðun minni. Eins og á nál. sjest, sendi nefndin borgarstjóra Reykjavíkur frv., og hann aftur dýrtíðarnefnd bæjarins. Lagði nefnd þessi eindregið á móti því, að frv. væri samþ. Allsherjarnefnd fjelst ekki á þá skoðun dýrtíðarnefndar Rvíkur nje borgarstjóra, en sjerstaklega tveir nefndarmennirnir litu svo á, að málið væri komið í eindaga, en þyrfti hins vegar góðs undirbúnings með; varð það því að samkomulagi að leggja til, að málið yrði afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem prentuð er á þgskj. 483. En jeg vil taka það fram, að jeg get ekki sjeð nokkra ástæðu til að samþykkja ekki frv. nú þegar, nema þessa, að tíminn mun orðinn nokkuð naumur. Ummæli borgarstjóra og dýrtíðanefndar eru gersamlega órökstuddur sleggjudómur. Vera kann, að menn segi, að hann og nefndin muni hafa betra vit á þessu máli en við þingmenn utan af landi, sem flytjum þetta frv., en jeg vil halda, að hann vanti alla reynslu um það, hvernig okkar frv. mundi reynast, hvort það myndi ekki koma að sömu notum. Aðalatriðið er það, að húsnæði minki ekki í bænum, heldur aukist, og um það væri einmitt von, ef þetta frv. yrði að lögum. Auk þess myndi samkomulag húseigenda og leigutaka stórbatna, og mun síst vanþörf á því.

Jeg færði rök fyrir frv. við 1. umr. Þau hafa engum mótmælum mætt, hvorki á fundum hjer í deildinni, nje í nefndinni. Þarf jeg því ekki að tala lengra mál um þetta. Jeg er alveg sömu skoðunar og áður, og þykir leitt, að málið kom ekki fyr inn á þingið. Jeg mun ekki greiða atkvæði um dagskrána nema nafnakall verði. Þá mun jeg greiða atkv. með henni, því í henni er fólgin viðurkenning um, að málið hafi við rök að styðjast, og áskorun til stjórnarinnar um að endurskoða núgildandi lög um húsaleigu í Reykjavík. Er því betra, að dagskráin nái samþykki, en málið falli niður ákvörðunarlaust.