11.07.1918
Efri deild: 62. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (1828)

117. mál, skipun læknishéraða

Frsm. (Eggert Pálsson):

Eins og hv. þm. sjá, þá verður ekki mikið grætt á því að lesa greinargerð þá, er fylgir frv., en hins vegar er, að því er frv. þetta snertir, vísað til greinargerðar á þgskj. 478, um frv. til laga um dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunarmönnum landssjóðs. Og af þeirri greinargerð sjest, hvers vegna fjárveitinganefndin hefir leyft sjer að bera þetta frv. fram.

Orsökin til þess, að nefndin ber frv. þetta fram, er sú, að fjárveitinganefnd Nd. hefir borið þar fram, og fengið samþykt, frv. til laga um bráðabirgðauppbót á launum ýmsra embættis- og sýslunarmanna landssjóðs.

Fjárveitinganefndin treystir sjer nú ekki til að mæla með því, að frv. þetta verði samþ. hjer, þar eð hún lítur svo á, að með því væri sá glundroði skapaður, sem lítt væri viðráðanlegur, og gerbreyting gerð á grundvelli launanna, þvert á móti því, sem verið hefir tilætlun þingsins hingað til.

Nefndin hefir því tekið það ráð, að taka læknana eina út úr þessu frv. og bera fram sjerstakt frv. um þá. Með frv. þessu eru laun þeirra hækkuð, og ætlast nefndin til, að þetta sje ekki bráðabirgðahækkun, heldur föst og áframhaldandi hækkun. þetta er gert með það fyrir augum, að hjer sje um þarfa stjett fyrir landið að ræða, stjett, sem landið megi ekki án vera, og stjett, sem ekki er hægt að launa með minnu en 1.800 kr. launum, þrátt fyrir það, þótt kringumstæður bötnuðu eitthvað frá því sem nú er.

Með því að ganga þessa braut, sem nefndin leggur til, breytist heldur eigi að neinu, svo unt sje að telja, launakjör lækna, frá því sem hv. Nd. ætlaðist til í frv. sínu.

Það liggur opið fyrir öllum, sem á frv. Nd. líta, að eftir því eiga læknarnir að fá alls 1.100 kr. hækkun á launum, eða 40% af 1.500 kr. = 600 kr., og 500 kr. bráðabirgðaviðbót. En eftir frv. nefndarinnar, er liggja fyrir hv.deild, yrði þetta svo, að sjálf launaviðbótin yrði 300 kr., og þar við bætist 840 kr. dýrtíðaruppbót, og verður það alls 1.140 kr., eða 40 kr. meiri laun til hvers læknis en hv. Nd. hefir samþ. Þessi munur er svo lítill, að það getur enginn gert ágreining út af honum.

Eins og hv. þm. sjá, þá er svo náið samband á milli þessa frv. og næsta máls á dagskránni, frv. um dýrtíðaruppbót, að nefndin telur sjálfsagt, að hið sama gangi yfir þau bæði.

Jeg tel, að fjárveitinganefnd hafi greitt vel og ljóst úr málinu, og vænti því, að frv. verði vel tekið. Það er nauðsyn, að hjer sje eitthvað að gert, meðal annars með tilliti til þess, að það er ekki ánægjulegt fyrir hv. þm. að vera að eiga við þetta mál ár eftir ár. Það er því mikið unnið við að koma málunum svo vel fyrir, að þau fái að vera í friði í nokkur ár á eftir. Og svo vona jeg að verði, ef frv. nefndarinnar verður samþ.

Vænti jeg því, að frv. verði vel tekið af hinni hv. deild.