20.04.1918
Neðri deild: 6. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (1846)

11. mál, sala Gaulverjabæjar

Flm. (Sigurður Sigurðsson): Um till. á þgskj. 11 er það að segja, að jörð sú, er þar um ræðir, Gaulverjabær í Árnessýslu, heyrir, að áliti sýslunefndar í Árnessýslu, undir 2. lið 2. gr. kirkjujarðasölulaganna. Hefir því sýslunefndin verið á móti sölu þessarar jarðar að undanförnu. Á sýslunefndarfundi Árnesinga 1917 var spurt um það, hvort þessi jörð, Gaulverjabær, teldist heyra undir 2. gr. nefndra laga. Var því þá svarað af sýslunefnd með 8:7 atkv., að ekki beri að selja nefnda jörð. Nefndin lýsti því annars yfir á þessum fundi, að hún væri yfirleitt á móti sölu opinberra jarðeigna í landinu. Að jeg flyt þessa till. er því bæði í samræmi við gerðir sýslufundar Árnessýslu og í samræmi við þá skoðun mína, að ekki beri að selja þessa jörð, frekar en Ólafsvelli.

Gaulverjabær er góð og gagnsöm jörð og vel í sveit komið. Get jeg hugsað mjer, að margir álíti þá jörð hentuga til sundurskiftingar og grasbýlabúskapar. Sá, sem nú býr á jörðinni, er Skúli Thorarensen, ungur maður og áhugasamur. Hefir hann hug á að eignast jörðina, og er það ekki láandi. En það hefi jeg margsinnis sagt honum, að honum ætti að vera innan handar að komast að svo góðum samningum um leigumála og jarðabætur, að hann mætti vel við una. Hann hefir áhuga á því að bæta jörðina, og ætti hann að geta það þótt hann fengi ekki jörðina keypta. Er vafalaust hægt að búa svo um hnútana, að hann fái kostnað sinn endurgoldinn, að svo miklu leyti, sem jarðabæturnar hafa ekki greitt hann eða borgað sig. Verð jeg því að leggja áherslu á, að þessi jörð verði ekki seld.

Skal jeg svo ekki orðlengja um þetta, en óska, að till. þessi sje vísað til hv. landbúnaðarnefndar og 1. umr. frestað.