30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (1853)

11. mál, sala Gaulverjabæjar

Frsm. meiri hl. (Sigurður Sigurðsson):

Jeg ætlaði mjer að byrja á höfðinu, sem sje hæstv. forsætisráðherra, en þar sem jeg sje, að hann er farinn af fundi, sleppi jeg að svara honum og sný mjer að þeim næsta, sem er hv. frsm. minni hl. nefndarinnar (P. Þ.).

Hann taldi óþarfa af hv. deild að taka fram fyrir hendurnar á hæstv. stjórn í þessum efnum. En jeg verð að segja það, eins og jeg líka veit, að hv. deild er mjer sammála um, að oft er full ástæða til að taka fram fyrir hendurnar á stjórnum í ýmsum málum og ekkert athugavert eða rangt við það. Um þann kafla ræðu hv. frsm. minni hl. (P. Þ.), sem nál. minni hl. snerti, er það eitt að segja, að hann var óendurbætt útgáfa af sjálfu nefndaráliti minni hl.

Hv. frsm. minni hl. (P. Þ.) var að reyna að færa rök að því, að þessi jörð væri engin sjerstök kostajörð, en tókst það ekki meira en í meðallagi, enda verða aldrei færðar sönnur á það, sem er fjarstæða. Jörðin er ágæt, og besta sönnunin fyrir því er það, að hún hefir verið prestssetur um langt áraskeið. En það er öllum kunnugt, að það voru að eins úrvalsjarðirnar, sem voru valdar til slíks. Og ef jörðin væri ljeleg, hvernig stendur þá á, að svo mikil áhersla er lögð á að fá hana keypta, ekki að eins af þeim ábúanda, sem nú situr hana, heldur og áður. Eldri ábúendur, sem hafa búið á henni síðan hún hætti að vera prestssetur, hafa einnig sókst eftir henni til kaups.

Um hrakspár hv. þm. (P. Þ.) viðvíkjandi Flóaáveitunni skal jeg ekki fjölyrða, en óviðfeldið er að heyra slíkt um þau fyrirtæki, sem Alþingi veitir fje til og væntir mikils hagnaðar af.

Það má vel vera, að rjett sje, að núverandi jarðarábúandi hafi ekki hug á að selja jörðina, þó hann fái hana keypta, og ætli sjer að sitja hana, a. m. k. fyrst um sinn. Honum fórust þannig orð við mig, að sjer dytti ekki í hug að selja hana á næstkomandi tíu árum. Af þeim ummælum hans sjest þó, að ekki er loku fyrir það skotið, að jörðin kunni að verða seld að þeim tíma liðnum. Og á þessum freistingatímum, þegar menn fá tilboð í jarðir sínar, sem jafnvel nema 50—100% hærri upphæð en þær voru áður keyptar fyrir, er mjög hætt við, að bændur selji og jarðirnar komist svo í hendur braskara.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) fann köllun hjá sjer til þess að halda langa prjedikun um þetta mál, vist til þess að rjettlæta snúning sinn gagnvart sölunni á þessari jörð, frá aðstöðu hans til sölu Ólafsvalla. Þar var hann móti sölu, en hjer er hann með! Er engin furða þó að honum vefðist tunga um tönn, er hann átti að fara að rjettlæta þennan tvískinnung sinn í málinu. — Sjerstaklega lagði hann áherslu á í ræðu sinni, að jeg færi með rangt mál, hvað dýrleikann á jörðinni snertir. Hann vildi fullyrða, að hundraðatal jarðarinnar væri miklu meira en nál. meiri hl. landbúnaðarnefndar tilfærir. Við þetta er það að athuga, að jeg fylgdi hjer jarðabókinni frá 1861; en í Gaulverjabæjarhverfi eru fleiri jarðir, og sumar þeirra heyra til hinu gamla Stokkseyrarprestakalli, og er það alt nefnt í daglegu tali Gaulverjabæjartorfa. Þetta er því rjett hjá hv. þm. (G. Sv.) hvað allar jarðirnar í Gaulverjabæjarhverfinu snertir. En Gaulverjabær sjálfur, með hjáleigum sínum, Brandshúsum, Garðhúsum, Dalbæ og Vaðlakoti, er 57,6 hndr. að dýrleika; um það er ekki að villast. Þegar um stærð áveitulandsins er að ræða, þá vil jeg minna á það, að í þessum 400— 500 ha. er talið bæði það land, er Miklavatnsmýraráveitan nær til, og það, sem kemur til að njóta áveitunnar úr Hvítá. Jeg hefi að vísu ekki dregið frá það áveituland, sem Stokkseyrarprestakallsjarðirnar eiga, enda ekki auðvelt að gera það. En það áveituland, sem tilheyrir Gaulverjabæ með hjálendum þeim, sem jörðinni heyra til, er áreiðanlega 400 ha.

Jeg skal svo að lokum snúa mjer að hv. 2. þm. Rang. (E. J.). Hann byrjaði ræðu sína með því, að hafa það eftir mjer, sem jeg hefi aldrei sagt. Jeg sagði aldrei í fyrri ræðu minni, að álit minni hl. væri vitleysa, en hitt voru mín orð, að minni hl. hefði ekki tekist meira en í meðallagi að færa rök fyrir því, hvers vegna hann er á móti þingsál.till.

Hv. 2. þm. Rang. (E. J.) gaf hv. deild ýmsar upplýsingar um framkvæmdir ábúanda Gaulverjabæjar; hefi jeg ekkert við þær upplýsingar hans að athuga. En jeg fer nú að freistast til að ætla, að það eigi sjer stað um þessa till., sem sagt var um till. í Ólafsvallamálinu, að eitthvað persónulegt liggi hjer á bak við. En jeg verð að halda fram, að engan greinarmun eigi að gera á sölu þessara tveggja jarða, þó að einhverjum kynni að vera það persónulegt kappsmál, að þessi jörð, Gaulverjabær, verði seld. Mjer er sagt, að hv. 2. þm. Rang. (E. J.) hafi gert þetta mál að umræðuefni á flokksfundi Heimastjórnarmanna í gærkveldi. Það bendir á, að mikið kapp er lagt á málið og að núverandi ábúandi fái jörðina keypta, og það heldur fyr en seinna. — Eftir umræðunum að dæma er svo að skilja, að verði rökstudda dagskráin, sem hv. frsm. minni hl. (P. Þ.) kom með, samþykt, þá muni málstað minni hl. borgið. Jeg hlýt því að vera á móti rökstuddu dagskránni, en tel, að samþykkja eigi tillögu mína.