30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (1854)

11. mál, sala Gaulverjabæjar

Jörundur Brynjólfsson:

Mjer finst umræðurnar í þessu máli hafa tekið nokkuð aðra stefnu en þörf er á, því aðalmergurinn málsins hjer er ekki annar en sá, hvort jörðina eigi að selja eða ekki. Beri maður saman þessa jörð og Ólafsvelli, þá er þess ekki að dyljast, að nær er að selja þessa jörð, þar sem ábúandinn er ungur maður og efnilegur og líklegur til frama sem búandi. En jafnframt verður að athuga, hvort landssjóður ber ekki skarðan hlut frá borði ef jörðin verður seld. það hefir nú reynst svo með þær jarðir, sem landssjóður hefir áður selt, að hann hefir tapað á þeirri sölu. Fram á þennan dag er ekki hægt að benda á nokkra jörð, að jeg hygg, sem landssjóður hefir haft hag af að selja; margir hafa einmitt þvert á móti sýnt fram á það, bæði í ræðu og riti, að landssjóður hafi tapað stórfje á sölu kirkju- og þjóðjarða. það lægi því miklu nær að tryggja ábúendum þjóðjarða ábúðarrjett æfilangt og búa betur í haginn fyrir þá, af landsins hálfu, en verið hefir, heldur en að selja burtu jarðirnar. Þannig ætti t. d. ábúandi þjóðjarðar að fá greiddar fullu verði, eða því sem næst, þær umbætur, sem hann hefir komið í framkvæmd á ábúðarjörð sinni, þegar hann flytur af jörðinni. En eins og kunnugt er, geta slíkar umbætur oft orðið mjög miklar, ef jörðin er vel setin. Og það mundi ábúendum hvöt til þess, að gera jörðinni enn meira til góða.

Því hefir verið haldið fram, að þjóðjarðir sjeu ver setnar en jarðir, sem eru í sjálfsábúð, en slíkt er ekki rjett. Það er öldungis víst, að margar þjóðjarðir eru prýðilega setnar, engu síður en sjálfsábúðarjarðirnar.

Svo virðist, sem menn sjeu hálfundrandi yfir því, að bornar eru fram tillögur, sem fara fram á, að þjóð- eða kirkjujarðir sjeu ekki seldar, en jeg hygg, að menn sái, að það er ekkert undarlegt, þegar litið er til þess, hvernig farið var með þjóðjarðasölumálið á síðasta þingi. Þá feldi þingið frv. stjórnarinnar um frestun á sölu þessara jarða. þessi jörð, sem hjer er um að ræða, er hið mesta höfuðból, víðlend og kostagóð. Hún liggur á áveitusvæðinu, sem kunnugt er, og á einmitt þar lendur miklar. Nú kostar landssjóður áveituna að og á auk þess að ábyrgjast hinn hluta kostnaðarins (%), eða jafnvel, ef á þarf að halda lána fje til framkvæmdarverkinu. Nú hlýtur maður að ætla, að verðmæti jarða á áveitusvæðinu aukist að miklum mun, og það miklu meira en þeim tilkostnaði nemur, sem verður við áveituna á hverri jörð.

Það er því hálfbágborin fjármálaráðstöfun frá landsins hálfu, ef það færi nú að selja þessa jörð, rjett áður en byrjað er á áveitufyrirtækinu. Jeg trúi ekki fyr en jeg tek á, að nokkur þm. ljái því fylgi sitt að selja jörðina, enda væri það með öllu óviðeigandi. Sú ástæða minni hl. landbúnaðarnefndar í þessu máli, að rjettmætt sje að selja jörðina vegna þess, að ábúandinn sje ungur og efnilegur, er engan veginn svo veigamikil, að af þeim sökum sje rjettmætt að selja jörðina. Þar kemur til álita, hvort hag landssjóðs sje jafnvel borgið, ef hann selur jörðina, og jeg fullyrði, að svo sje ekki. Vjer, sem erum á móti allri þjóðjarðasölu, teljum, að landssjóður ótvírætt tapi á þjóðjarðasölunni, og þjóðjarðasölumennirnir hafa sjálfir, þegar um jarðasöluna hefir verið deilt, sýnt fram á, að landssjóður tapar á þjóðjarðasölunni.

Í þessu sambandi minnist jeg ummæla l. þm. Húnv. (Þór. J.), er þjóðjarðasölumálið var til umr. á síðasta þingi, því þau ummæli bregða einkar skæru ljósi yfir það, hvílík fásinna er að selja þjóðjarðir. Hann segir svo á einum stað, — með leyfi hæstv. forseta:

„Það var ekki heldur rjett, sem hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) sagði, að menn keyptu jarðir sínar sjer um megn. Það gera menn ekki, af þeirri einföldu ástæðu, að borgunarskilmálarnir eru svo góðir, að menn vita tæplega af annari greiðslu en þeirri fyrstu. Árleg afborgun og vextir er ekki meira en vanalegt eftirgjald.“

Jeg hjó eftir þessum röksemdum hjá hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) í fyrra, en þótti ekki rjett að gera athugasemd þá, með því að jeg hjelt, að þessi ummæli hans hefðu verið sögð að lítt athuguðu máli. En þegar jeg sá þau svo í þingtíðindunum, þóttist jeg vita, að þau mundu af fullri athugun sögð, enda munu þessi ummæli hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) vel geta staðist; en ekki er því að leyna, að mig furðar mjög svo mikið á, að hann skuli geta verið með sölu þjóðjarða.

Jeg hygg, að fyrir hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) hafi vakað það, að leggja að jöfnu afborgun og vexti af seldri þjóðjörð og eftirgjaldið af henni á meðan hún var í eigu landsins og þetta er líka rjett. En greiðslan til landssjóðs verður þó ekki hin sama alt tímabilið, sem jörðin á að borgast á. Afborganir eru jafnar, en vextir þverra eftir því, sem eftirstöðvarnar af jarðarverðinu minka, uns jarðarverðið er að fullu greitt. Þess vegna greiðir jarðarkaupandi meira fyrstu árin eftir að hann keypti jörðina en hin síðustu. Jeg geri því ráð fyrir, að hv. 1. þm. Húnv. (Þór J.) hafi átt við jafna greiðslu öll árin, að afborgun og vextir til samans, sem greiddar væru í landssjóðinn, væru jafnar alt tímabilið (28 ár). En með þessu móti gefur landssjóður jörðina á 34 árum, samkv. skilmálum þeim, sem nú gilda um sölu þjóðjarða.

Við skulum taka dæmi. Jeg hugsa mjer, að landið selji jörð fyrir 30.000 kr., og eigi hún að borgast upp á 28 árum. Fyrsta afborgun er kr. 3.000; þá eru eftirstöðvar á fyrsta ári kr. 27.000. Jöfn greiðsla af þessari upphæð, vextir og afborgun (6% af 27.000 kr.), er 1.620 kr. árlega í 28 ár. Nú var fyrsta afborgun 3.000 kr., en eftir 28 ár er sú upphæð með rentum og renturentum 9.000 kr. Sje nú eftirgjaldið reiknað það sama á ári eins og árlega afborgunin og vextir af eftirstöðvunum (27.000 kr.), þá verður af þessum 9.000 kr. að taka árlega 1.620 kr., uns þær (9.000 kr.) eru þrotnar (árlegar eftirstöðvar vaxtast auðvitað). Þessi 9.000 kr. upphæð endist þá í tæp 6 ár (5,9 ár). Hvað hefir þá skeð á þessum 34 árum, sem liðin eru frá því, að landssjóður seldi jörðina? Það, að landssjóður hefir gefið jörðina, þessar 30.000 kr., og þá jafnframt þann tekjustofn, sem hún var, nefnilega 1.620 kr. árlegar tekjur.

Þetta hygg jeg að bregði nokkuð skýru ljósi yfir þjóðjarðasölumálið og sýni, hvílík fásinna það er af þingi og; stjórn að leyfa nokkra þjóðjarðasölu.

Nú gæti jeg ef til vill gengið inn á, að þarna skyti ofurlítið skökku við hjá hv. þm. (Þór. J.), að rentur og afborgun af jarðarverðinu sje nokkuð meira en árlegt eftirgjald af jörðinni. En samt er jeg ekki í neinum efa um, að eftir æði mörg ár er landssjóður búinn að gefa jörðina. Útkoman verður því nokkuð lík.

Jeg get ekki að mjer gert að undrast það, að margir þeirra manna, sem tjá sig vilja fara hvað best með landssjóðinn og eignir hans, telja eftir hvað litla fjárupphæð sem er, skuli vera í þeirra hóp, sem farga vilja slíkum eignum landssjóðs, honum til stórskaða. (P. J?.: Var ekki þessi ræða haldin 1907?) Það þekki jeg ekki, en hv. þm. Mýra. (P. Þ.) þekkir það, sem jeg hefi drepið hjer á; má hann hafa vonda samvisku fyrir það, hvernig hann hagar sjer í þessu máli.

Þessir hagsmunir landssjóðs, sem jeg hefi nú talið, eru ætíð til staðar þegar rætt er um það, hvort landssjóður á að selja jarðir sínar, hvort sem ábúandi er ungur og efnilegur eða ekki. Og jafnvel þó að jeg gengi inn á, að landssjóður tapi ekki eins miklu og hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) segir, þá rjettlætir það þó ekki, að þessari jörð sje fargað.

Að endingu vil jeg, eins og hv. frsm. meiri hl. (S. S.), víkja að þeim orðum hæstv. forsætisráðherra, að það væri undarlegt, er slíkar þingsályktunartill. kæmu fram. Það er ekkert undarlegt, þótt þeir menn, sem telja, að landssjóður eigi ekki að farga sínum bestu eignum, skjóti slíku máli sem þessu til þingsins. Það ætti að vera öllum ljóst, að þar sem meiri hl. þessarar hv. deildar hefir felt frumvarp til frestunar á þjóðjarðasölulögunum, þá er það mönnum þeim, sem á móti eru sölunni, því meiri hvöt til að reyna að bjarga einstökum kostajarðeignum hins opinbera. Og hygg jeg, að þeir, sem eru sömu skoðunar og hv. frsm. meiri hl. (S. S.), kunni honum bestu þakkir fyrir þessar till., sem hann hefir flutt til þess að reyna að hindra það, að landssjóður fargaði Þessu höfuðbóli.