30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (1857)

11. mál, sala Gaulverjabæjar

Bjarni Jónsson:

Mjer er það dálítið óskiljanlegt, hvers vegna menn ræða hjer svo kappsamlega þessa till., þar sem hjer var á ferðinni fyrir örfáum dögum samskonar till. og var samþykt með miklum meiri hl. Mjer hefði þótt ótrúlegt, ef því hefði verið spáð fyrirfram, að margir vildu nú selja, sem þá vildu ekki selja, og gera svo upp á milli, þar sem svo að segja enginn munur er á. Nú er það fram komið, að margir þeir þykjast geta varið það, að láta sölu fara fram, sem þá töldu óverjandi að selja, er um Ólafsvelli var að ræða.

Jeg vil að eins með örfáum orðum lýsa yfir því, að þær ástæður, sem þessir menn hafa nú fært til sönnunar sínu máli, eru ónýtar, því að þeir eiga enn eftir að sanna, að hjer standi öðruvísi á en um Ólafsvelli, og það verður ekki sannað. Vil jeg þó gera undantekningu að því einu, er ábúandann áhrærir. Að öðru leyti stendur eins á.

Jeg man eftir því, að hjer á þingi var eitt sinn neitað um sölu á jörð vestur í Dalasýslu. Það var jörðin Skarfsstaðir. Sigmundur bóndi þar, er þar hafði búið allan sinn aldur og var orðinn gamall maður, vildi fá jörðina keypta. Þá var neitað vegna þess, að einhvern tíma hafði komið til mála, að þar yrði skóli settur. Nú vita það allir, er til þekkja, að á þessum stað getur ekki verið um annan skóla að ræða en barnaskóla. En ef þá hefir verið hægt að neita á þessum grundvelli, þá mun enginn neita því, að umsögn um Gaulverjabæ sem skólasetur er eins rjetthá, og enda öllu meira í henni. Verður þá þegar sú röksemd móti sölu Gaulverjabæjar jafnþung eða þyngri á metunum en hún var, er um Skarfsstaði var að ræða. Allar þær ástæður, sem bornar voru hjer fram áður móti sölu Ólafsvalla, eiga því og við í fylsta mæli um þessa jörð, sem hjer ræðir um.

Hjer við bætist svo það, sem sagt hefir verið um áveituna. Það væri óðs manns æði, ef landssjóður seldi jarðir á áveitusvæðinu, sem hann ætlar nú að leggja stór fje í. Allir búast við stórgróða af því verki. Jarðir munu stíga afskaplega í verði. Það þýðir því ekkert að standa hjer upp í dag og segjast vera hræddur um, að enginn gróði verði af Flóaáveitunni. (P. Þ. Rangfærsla). Þingmenn hafa þá, er þeir samþyktu, að landssjóður kostaði fje til Flóaáveitunar, verið að leika sjer með miljónir til að gera garða og skurði, ef þeir hafa ekki von eða heldur vissu um það, að jarðirnar batni, er áveitan er búin. En ef þeir hafa vonir um, að jarðirnar batni, því vilja þeir þá selja? Ef svo er heilagur rjettur ábúenda landssjóðsjarða á Suðurlandsundirlendinu, mundi þá ekki skylda landssjóðs að bæta jarðir alstaðar á landinu? Mjer skilst, að ef eigi eru gerðar undantekningar frá lögum um þær jarðir, sem svo eru bættar, er jeg lýsti, þá muni af því leiða, að í framtíðinni muni menn vitna í það, að þá er þessi lög um áveitu komust í framkvæmd, var Gaulverjabær seldur ábúanda með venjulegum kjörum. Áður en hann var seldur lofaði landið fyrirfram að kosta þar jarðabætur. Svo kem jeg og vil fá keypta einhverja jörð. En jeg segi, að mjer sje ekki nóg að fá jörðina í þessu ástandi, heldur verður nú sá góði landssjóður að leggja þar fje í vatnsveitur og skurðgröft, og svo má hann ekki setja verðið mjög hátt, til þess að ganga ekki of nærri mínum heilaga rjetti.

Þetta er óhæft. Þótt ábúendur þjóðjarða hafi sínar kröfur, þá á enginn ábúandi eða sjerstakur maður að rjettu lagi heimtingu á því að fá keypta jörð, sem landssjóður er búinn að ákveða með lögum að leggja stórfje í að bæta. Það er alveg rangt. Þessi lög um sölu landssjóðsjarða hafa aldrei heimilað þetta og gera ekki ráð fyrir því. Þar er eyða í lögunum.

Hvað viðvíkur jarðasölunni alment, þá er kunn skoðun mín á henni. Hún er hin sama og hv. 1. þm. Reykv. (J. R.) hefir nú lýst um hríð. Hygg jegr að reikningur hans sje alveg rjettur. Það liggur í augum uppi, áð þegar vaxtafótur er 4% og jörð borgast upp á 28 árum með 4% vöxtum og 2% afborgun, þá geta allir sjeð, að landssjóður fær 6% af eign sinni í 28 ár, en ekkert úr því, og missir eignina. En hefði hann ekki selt, hefði hann getað fengið 4% af jarðarverðinu í eftirgjald í 28 ár, og síðan 4% um alla eilífð.

Hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) talaði með meiri stillingu en þeir hv. þm., sem nú eru að taka fram í. Hann hjelt því fram, að það gæti orðið óbeinn gróði fyrir landið að selja jarðir sínar, því að þær gæfu meira af sjer eftir að þær væru komnar í einstakra manna eign. Þetta gæti vel verið, ef það væri rjett, sem hv. þm. (Þór. J.) heldur fram, að jarðirnar sjeu betur setnar og ræktaðar eftir en áður; jeg skal viðurkenna, að þetta getur verið rjett hjá honum í sumum tilfellum, en hvergi nærri öllum. Og það er hvergi nærri sjaldgæft, að leiguliði, sem enga ívilnun fær, geri mikið til að bæta ábýlisjörð sína, en eigandi jarðar gerir alls ekkert til þess að fá leiguliða til þess að sitja vel jörðina, nje greiðir honum nokkra þóknun fyrir það, sem hann bætir hana. Þetta er svo algengt, að því verður ekki neitað, enda gæti jeg talið upp dæmi þúsundum saman, ef jeg vildi hafa fyrir að leita að þeim, því að það munu hv. þm. geta skilið, að jeg er ekki svo kunnugur þessum málum, að jeg geti talið upp fjölda dæma utan að.

En það, sem þessi hv. þm. (Þór. J.) hefir alveg rjett fyrir sjer í, það er, að það þarf á einhvern hátt að reyna að fá menn til að sitja betur landssjóðsjarðir, en að það fáist með því að selja þær, er alveg rangt. Væri ekki betra, að landssjóður eignaðist heldur jarðir, og ljeti mönnum þær svo í tje með aðgengilegum skilmálum? Jeg sje, að einn góður bóndi brosir að því, sem jeg segi nú, en jeg skal láta það bros hverfa. Segjum, að hann eða jeg sjeum frumbýlingar og vilji koma upp góðu búi, eigi dálítið af peningum og lánstraust. Ef jeg nú á að kaupa dýra jörð, þá fer mikið af því, sem jeg á, og sömuleiðis lánstrausti mínu, í kaupin, og þá á jeg erfitt með að setja uppbú. (Þór. J. :En jörðin?) Hv. þm. (Þór. J.) myndi tregari til að skrifa upp á víxil fyrir mann, sem hefði dýra jörð, er hann hefði ekkert borgað, og vantaði bústofn, heldur en hinn, sem hefði sest á landssjóðsjörð með góðum kjörum. Menn eiga ekki að festa kaup á jörðum, sem þeir geta átt á bættu að vera hraktir frá, en hitt vil jeg, að ef þeir gera leigujörð til góða, þá eigi þeir verk sín, enda er ekkert hægra en búa svo um, með leigumála á landssjóðsjörð, að þeir fái lífstíðarábúð og auk þess ágóðann af vinnu sinni. Ef þetta væri aðalstefnan, mætti gera ábúð alveg eins góða og sjálfseign, og það yrði þá enginn munur á því og að búa á eigin eign og gjalda skatt af henni. Á þennan hátt mætti bæta ræktun landsins, ef bæði landssjóður og jarðeigendur hefðu það fyrir augum, að þetta er vegurinn, en ekki sá, að landssjóður kasti jörðum sínum í einhvern og einhvern, sem svo hangir kann ske nokkur ár við búskap og selur svo jörðina hverjum sem hafa vill, — og skal jeg geta þess, að hjer tala jeg ekki til þess heiðvirða manns, er leitað hefir kaups á Gaulverjabæ.

Nei, regla landssjóðsins er vitlaus; hann á aldrei að selja jarðirnar.

Svo skal jeg benda á, að undarlegt er, ef hv. þm. fara nú að greiða atkv. þvert ofan í það, sem þeir hafa gert fyrir nokkrum dögum. (P. O.: Nú er hv. þm. Dala. (B. J.) hættur að vera frumlegur). Jeg skil ekki þennan ágæta andbýling minn, en leitið í öllum þingtíðindunum, og þjer munuð hvergi finna, að jeg hafi sagst vera frumlegur.