30.04.1918
Neðri deild: 13. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (1866)

26. mál, úthlutun matvöru- og sykurseðla

Flm. (Þorleifur Jónsson):

Með því að fundur þessi hefir staðið svo lengi, skal jeg vera stuttorður.

Það er aðallega eftir áskorun og beiðni manna í Austur-Skaftafellssýslu að jeg hefi leyft mjer að bera fram þessa þingsályktunartill., og þar sem svo er ástatt, að á fleiri stöðum mundi vera þörf fyrir sömu ákvæði, gerðust tveir hv. þm. meðflutningsmenn mínir. Það er ekki svo að skilja, að við sjeum á nokkurn hátt að amast við seðlafyrirkomulaginu í sjálfu sjer. Það er auðvitað rjettast, að allir fái sem jafnastan skerf, og til þess er seðlafyrirkomulagið. En hins vegar er ekki hægt að neita því, að þessi seðlaúthlutun hefir miklu meiri óþægindi í för með sjer fyrir þá, sem búa í sveitum, en þá, sem í kaupstöðum eru, og sjerstaklega þar sem aðdrættir eru erfiðir og fara verður í kaupstað um langa og torsótta vegi. Fyrir slíka menn er mjög óþægilegt að geta ekki fengið nema lítið eitt í einu, jafnvel þó að nægar vörur kynnu að vera fyrir hendi.

Í reglugerðinni um þetta er ákveðið, að útbýtt skuli til 4 mánaða í sveitum, og býst jeg við, að það muni nægja þar, sem stutt er í kaupstað og aðrar aðstæður góðar. Og þó að þeir verði að fara kaupstaðarferðir svo sem 3—4 sinnum á ári, sem hafa stuttan og greiðan veg í kaupstað, það er sök sjer. En. þar, sem langir og torsóttir vegir eru, verður þetta mjög bagalegt. Jeg skal taka til dæmis Öræfi í Austur-Skaftafellssýslu, þar er svo langt í kaupstað, ca. vikuferð, yfir eyðisanda og stór vötn á báðar síður. Þar er það reglan, að bændur sækja forða sinn rjett fyrir sláttinn, en samkvæmt reglunni er ekki heimilt að láta þessa menn hafa forða nema til 4 mánaða. Því verða þeir að fara aftur af stað, hvernig sem viðrar og hvernig sem vegir eru að haustinu, til þess að sækja forða á ný, sem þó ekki nægir nema nokkuð fram eftir vetri.

Jeg vona, að hv. þingdeildarmenn muni sjá, að þetta er mjög bagalegt fyrir þá, og eins fyrir þá, sem eiga yfir erfiða fjallvegi að sækja, að geta ekki flutt að sjer forða nema til svona skamms tíma í einu. T. d. er mjer kunnugt um, að þetta er mjög óþægilegt í Múlasýslum báðum; kemur það sjer einkum illa fyrir Hjeraðsbúa að geta ekki sætt því að flytja sem mest heim til sín að sumrinu. Það er með tilliti til þessara sveita, sem einkum eru illa settar með aðflutninga, að við berum fram þessa þingsályktunartill., og vona jeg, þó að matarskömtun sje nauðsynleg, þá sjái menn þó, að það getur verið nauðsynlegt, að nokkrar undantekningar eigi sjer stað frá aðalreglunni, og það er með það fyrir augum, að jeg hefi leyft mjer að koma fram með þessa till. Jeg vonaðist eftir, að hæstv. stjórn myndi sjá sjer fært að veita einhverja undantekningu frá aðalreglunni, í þeim hjeruðum, þar sem sjerstaklega er erfitt um aðflutninga, en það getur verið, að stjórnin og forstöðumenn landsverslunarinnar svari því, að vörur hafi ekki verið fyrir hendi til þess að útbýta til afskektra sveita, og getur vel verið, að svo hafi staðið á, en jeg verð að álíta, að það verði að láta þá staði sitja fyrir vörum á hentugum tíma, sem svo illa eru settar eins og þær, sem jeg hefi bent á, og það sem mest að sumrinu, svo að menn geti notað besta tímann til þess að flytja heim til sín, heldur en að hrúga birgðum upp hjer í Reykjavík mjög mikið. Jeg get ekki sjeð, að það sje mikill skaði skeður, þó að á aðalhöfnum landsins, t. d. Rvík o. fl. yrðu minni birgðir að sumrinu, þar sem ætla má, að til þeirra staða sje hægt að flytja allan veturinn.

Um seinni lið till. þarf jeg ekki að fara mörgum orðum, því að jeg býst við, að stjórnin sje sama sinnis um það, sem þar er farið fram á, nefnilega að láta þau hjeruð, sem hafa vondar hafnir, sitja fyrir flutningum að sumrinu. Svo vona jeg líka, að landsverslunin geri það eftir bestu föngum, en þótti þó rjett að minna á, að þetta er nauðsynlegt.

Jeg skal svo geta þess, hve hættulegt það getur verið, ef bíða verður með að flytja til vondra hafna þar til vetur er kominn.

Í fyrra haust var ekki hægt að fá meira en 30—40 tunnur af steinolíu handa Austur-Skaftafellssýslu. Það var, eins og allir hljóta að skilja, með öllu ófullnægjandi sýslubúum. En um nýársleytið fjekk stjórnin olíufarm, og voru Austur-Skaftafellssýslu ætlaðar um 50 tunnur þar af. Voru þær fluttar til Fáskrúðsfjarðar í janúar, að mig minnir, en vegna óhagstæðrar veðráttu varð aldrei hægt að koma olíunni frá Fáskrúðsfirði til Hornafjarðar, og þegar jeg fór að heiman, 3. apríl, var olían ókomin enn.

Afleiðingin varð sú, að út úr miðjum vetri var víða ljósmatarlaust, að jeg ekki tali um, að menn gætu yljað upp híbýli sín, því ekki var miklu útbýtt af gjafakolunum svo kölluðu til sveita, sem aldrei var heldur búist við.

Jeg gat þessa til þess að sýna fram á, hversu varhugavert það getur verið að bíða með flutninga til slíkra hafna sem hjer um ræðir þar til vetur er kominn. Jeg skal láta þess getið, að jeg segi þetta ekki til þess að kasta steini að landsstjórninni, því hún gat ekki betur en hún gerði. Það er eins ástatt um Vík í Mýrdal og um Hornafjörð, að illmögulegt mun vera að komast að henni þegar vetra tekur, enda munu þessar tvær hafnir, Vík í Mýrdal og Hornafjörður, vera einhverjar torsóttustu hafnir á landinu að vetralagi.

Jeg vona því, að stjórnin taki liðlega í þetta mál, þegar svona stendur á, og sömuleiðis vona jeg, að forstjórar landsverslunarinnar athugi vel, hversu brýn nauðsyn er á að birgja slíkar hafnir sem þessar upp að sumarlagi.

Jeg veit ekki hvaða hug hv. deild ber til málsins, en ef hún skyldi að órannsökuðu máli álíta þessa tillögu óþarfa, þá væri þó rjettara að vísa því til t. d. bjargráðanefndar, en fella það ekki að svo komnu. Jeg vil ekki beint gera það að tillögu minni, að málið verði látið fara í nefnd; þó vil jeg láta þess getið, að jeg mundi geta unað því.