14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (1876)

46. mál, biðlaun handa Metúsalem Stefánssyni

Frsm. (Jón Jónsson); Eins og hv. deild er kunnugt, var samþ. í fyrra á þingi, að landssjóður tæki við Eiðaskólanum og skólinn um leið gerður að alþýðuskóla. En um leið og það var gert var skólastjórinn sviftur stöðu til frambúðar, og þar sem hjer er um mætan mann að ræða fyrir landbúnaðinn og mann, sem reynst hefir vel í stöðu sinni, þá telur nefndin sanngjarnt, að hann fái þá þóknun, sem hjer er farið fram á.

Fyrir árið 1918 hefir ekki verið borgaður út styrkur til Eiðaskólans nema að hálfu leyti. Eftir ættu því að vera kr. 1.500 af þeim styrk, sem árlega var ætlaður til skólans; gæti þetta fje þá gengið til þessa, og þyrfti ekki nema 500 kr. í viðbót, ef biðlaunin yrðu fyrir tvö ár 1.000 kr. á ári, eins og þingsál.till. gerir ráð fyrir. Til frekari skýringar skal þess getið, að þessi maður er einn af efnilegustu búfræðingum þessa lands og getur vafalaust orðið landinu enn að miklu liði. Jeg hygg því rjett, að sýna honum þessa viðurkenningu uns hann færstöðu, sem jeg býst við að verði fljótlega, þar sem nú er í ráði að setja sjerstakan umsjónarmann með gróðurtilraunum hjer á landi, og sennilegt, að honum verði veitt það starf.

Það er ekki gert ráð fyrir því, að biðlaunin sjeu veitt fyr en 1919, því að fyrri eigendur skólans hafa hann þangað til í sumar, og um biðlaun úr landssjóði getur því ekki verið að ræða fyr en að þessu ári liðnu. En um leið og skólinn hættir að starfa sem búnaðarskóli missir skólastjórinn stöðu sína og bíður af halla, eins og öllum má vera ljóst. Væntir fjárveitinganefndin svo styrktar hv. deildar í þessu máli, og skal ekki orðlengja um það meir.