21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (1891)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

1891Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Mjer er sagt, að háttv. framsm. (G. Sv.) hafi vikið að því, að jeg muni hafa fengið 500 kr. í ferðakostnað norður. Jeg var kallaður í landssímann og heyrði því ekki, hvernig háttv. þingm. fórust orð um þetta. Jeg var búinn að skýra frá því, að jeg hefði fengið 44 kr. fyrir að ferðast frá Ysta-Felli til námunnar á Tjörnesi. Mjer þykir leitt, ef nokkrum skyldi detta í hug, að nokkuð hafi runnið til mín af fje landsins. Jeg tók við þessum 500 kr. hjá landsfjehirði og afhenti þær gjaldkera námunnar, þegar norður kom, og jeg get fullvissað háttv. þingm. um það, að síðan jeg tók við ráðherrastöðu hefir ekkert til mín runnið, utan við laun mín, nema þessar 44 kr., sem jeg hefi áður skýrt frá.

Við þessa löngu ræðu hans (G. Sv.) hefi jeg ekki mikið að segja. Hún var að miklu leyti endursögn hinnar fyrri, og jeg sje ekki ástæðu til að tefja tímann með því að svara henni aftur.

Jeg þóttist vera búinn að skýra frá því áðan, hvers vegna stjórnin keypti námuna, í stað þess að leigja hana áfram. Hún áleit það hyggilegt, því ekki þurfti að taka upp nema 5.000 smálestir af kolum til þess, að jafnmikið færi í leigu og kaupverðið var. Nú er þegar búið að taka upp 2/5 af þessu, og jeg vona, að hitt verði tekið upp, þrátt fyrir allar illspár háttv. fjárhagsnefndar.