21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (1892)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Pjetur Jónsson:

Hæstv. atvinnumálaráðherra skírskotaði til mín, sem kunnugs manns, að gefa einhverjar upplýsingar í þessu máli. Það er nú gagnslitið að vitna til mín um það, sem námuna snertir, því þó að jeg eigi heima þarna nálægt og sje kunnugur staðháttum, þá er jeg ekkert sjerstaklega kunnugur námunni eða rekstri hennar. Að vísu hefi jeg komið þangað einu sinni síðan verkið byrjaði. Jeg var ekki nyrðra þegar byrjað var á námugreftinum og kom ekki heim fyr en undir það að hríðir skullu á í haust. En jeg var tíður gestur á kontór sýslumannsins á Húsavík og varð var við það, sem þar fór fram þessu máli viðvíkjandi. Það er hætt við því, að þó að jeg fari að gefa skýringar um málið, eins og það horfir við mjer, þá yrðu þær of ófullkomnar til þess að byggja á þeim dóm. Skýrsla háttv. fjárhagsnefndar er skýr og góð, það sem hún nær, en hún nær alt of skamt til þess að byggja á henni þann dóm, sem háttv. framsm. (G. Sv.) hefir nú upp kveðið. Og allra síst nær hún nógu langt til þess að byggja á henni jafnþung orð og hann viðhafði um ráðleysi og fyrirhyggjuleysi stjórnarinnar. Þau orð voru svo þung, að miklu meiri gögn yrði að hafa í höndum til þess, að hægt væri að telja þau rjettmæt. Einnig verð jeg að telja það óviðeigandi og óheppilegt, að ýmsir menn þar nyrðra hafa verið dregnir inn í umræðurnar, alveg að ósekju. Skýrslan gaf ekkert tilefni til þess, en umræðurnar hafa nú hneigst þannig, að ýmsra manna hefir verið getið á þann veg, að blöðin — eins og þau þegar hafa sýnt sig í — nota það óþyrmilega og gera sjer það að mat.

Jeg er, eins og jeg hefi drepið á, dável kunnugur afskiftum sýslumannsins í Þingeyjarsýslu af þessum málum. Jeg var svo oft staddur á kontór hans þegar hann var við þau að fást. Það má nú náttúrlega segja, að mjer sje málið of skylt, þar sem bróðir minn á í hlut. En jeg get fullvissað menn um það, að hann lagði sig mjög í líma fyrir þetta mál og lagði mikið á sig, — miklu meira en hægt var að heimta af manni, sem hefir jafnmiklum embættisstörfum að gegna. Reikningar hans hygg jeg að hafi altaf verið í lagi, það sem þeir gátu náð, og það getur ekki verið rjett, að nokkurn tíma hafi staðið á skýrslu, sem hann átti að gefa, hafi hann getað gefið skýrsluna í tækan tíma. Hæstv. atvinnumálaráðherra hefir nú líka borið blak af honum.

Það var einmitt sumarið 1916, sem byrjað var ögn á kolagrefti á Tjörnesi í stærri stil. Áður höfðu Tjörnesingar einir tekið kol úr námunni til heimanotkunar. Þetta sumar fengu tveir menn leyfi til að taka þar upp kol og selja, bæði til Húsavíkur og jafnvel annara nágrannastaða. Þetta hefir orðið til þess, að þessari námu var sint meira en öðrum, enda lágu til þess fleiri ástæður. Stálfjallsnáman er í höndum sjerstaks fjelags, Dufansdalsnáman líka. Hvoruga þessa námu átti því landssjóður kost á að starfrækja, en hjer var opin leið að námurjettindunum. Það er því skiljanlegt, að stjórnin sneri sjer að þessari námu. Dómarnir um gæði kolanna hjer eru, eins og jeg þekki frá Húsavík, einkum fyrst í stað, sinn á hvað. Kolin, sem tekin voru upp 1916, fengu líka mjög misjafna dóma, voru misjafnlega valin og vinsuð og reyndust því misjafnlega. Og jeg vissi til þess, að það, sem brent var á Húsavík af landssjóðskolum, reyndist öllu jafnara en það, sem áður hafði komið þangað af kolum frá Tjörnesi. Það kom að vísu einnig fyrir, að sumt af landssjóðskolunum var ekki vel vinsað, en sumt var aftur á móti svo vel vinsað, að ekki varð verulega að því fundið. Þegar kolin eru illa vinsuð, þá eru þau stundum svo, að ekki borgar sig að flytja þau, en sjeu þau vel vinsuð, þá reynast þau, alveg eins og efnarannsóknirnar hafa bent til, á móts við venjuleg ofnkol. Jeg hefi brent þeim í einum ofni, og mjer hafa reynst þau svo, að altaf er hægt að fá af þeim sæmilegan hita, þó allhörð veðrátta sje, ef ofninn er hentugur fyrir þau. Það var að vísu fullhart í mestu frosthörkunum í vetur, að hægt væri að hafa nægan hita af þeim eintómum, sjerstaklega ef ekki var hitað upp á hverjum degi.

Það hefir nú verið sýnt með efnarannsókn, að notagildi kolanna geti verið alt að helmingi á við góð, ensk kol. Sama hefir reynslan sýnt á Húsavík í góðum eldstæðum, ef kolin eru vinsuð með sæmilegri vandvirkni, einkum ef kolunum er brent með útlendum kolum. Dómar manna um kolin eru misjafnir, en eldstórnar eru líka misjafnar, sem þeim er brent í. Þau þurfa fullum helmingi meira rúm en ensk kol, til þess að geta brunnið vel, og er þess ekki að vænta, að kolin reynist vel, nema eldstóin sje við þeirra hæfi. Það er að vísu satt, að kolin hafa ekki öll verið jafnvel vinsuð. Um tíma var verið að reyna neðra lag, en áður hafði verið tekið fjórða lagið, og reyndist það mjög blendið. Sömuleiðis var sumt af kolunum vinsað inni í göngunum, og er ilt við það að fást, þegar vinna verður við ljós. Jeg vissi til þess, að nokkrir bátsfarmar komu til Húsavíkur, sem illa voru vinsaðir. Annað er það, að kolin ljettast afarmikið eftir að þau koma úr námunni og eru lengi að ljettast, ef þau liggja undir beru lofti. Verða þau þá að mylsnu og með tímanum því sem næst ónýt. Jeg get því hugsað mjer að þau sjeu tæplega hæf til að flytjast langar leiðir eða til að liggja úti. Og jeg er viss um það, að einmitt af þessu stafar það, að reynslan hefir yfirleitt orðið lakari hjer í Reykjavík en t. d. á Húsavík.

Það er óneitanlega áhyggjuefni, að hallinn skyldi verða svona mikill á þessari tilraun. En jeg vil leggja áherslu á það, að þetta fyrirtæki er ekki einungis bjargráðafyrirtæki, heldur líka tilraun til að komast að raun um það, hvort kolanám geti lánast hjer á landi. Tekjuhallinn er mikill. En jeg bjóst líka altaf við því, að svo mundi fara, þótt jeg ætti tæplega von á svona miklu. En þegar jeg sá námuna, kom jeg auga á nokkuð, til þess að hugga mig við í þessu kolamáli. það er það, að með þessu er fengin ábyggilegri reynsla um kolanám hjer á landi heldur en nokkurt annað slíkt fyrirtæki veitir, ekki einungis fyrir þessa námu, heldur er hjer líka fengin reynsla, sem getur komið að notum við aðra námu. Og það fæst ekki fyrirlitið að rannsaka, eins og nú hefir verið gert á Tjörnesi, bæði með því að bora og ryðja í burtu jarðlögum. Það er t. d. ekki lítið, sem hefir farið í að rannsaka hve djúpt kolin liggja. Dálítið var reynt við 4. lagið, en kolin, sem úr því voru tekin, reyndust ekki vel. Nú er samt ekki búið að ganga frá þeirri rannsókn eins vel og þyrfti. Það veit enginn enn, hve neðarlega kol kunna að finnast. Og líkur þóttu til, að kolin væri því betri, sem þau lægju neðar.

Jeg held þess vegna, að menn verði að skrifa nokkuð af þessum halla á reikning kolarannsóknanna. Nokkuð af hallanum ætti að heimfæra undir afslátt á kolum. Sýnt hefir verið fram á það, að landssjóðskol voru seld ódýrara en önnur kol, sem líka voru unnin þarna og seld. Því ekki er það nema hugarburður, að kolin sjeu nokkuð betri, til jafnaðar, í Hringversnámunni. Mætti frekar ætla, að þau væru betri í Tungunámunni, því kolalögin liggja þar neðar í bakkanum. Á Húsavík hefir orðið töluverð þræta um það, úr hvorri námunni kolin eru betri. Sumir álíta, að vinsunin hafi verið öllu betri í Hringversnámunni. Má vel vera, að það hafi við nokkur rök að styðjast, því þar hefir minna verið vinsað í göngunum og því líklega vinsunin fult svo góð.

Svo verða menn að muna hvernig veturinn var. Hann byrjaði með hríðum og frosti í október og stóð svo með stórhríðum af og til og grimdarfrosti fram á þorra, og allan veturinn, fram undir sumarmál, voru hríðar og snjóar. Vinnan verður að sjálfsögðu minni og ódrýgri þegar svona viðrar. Suma daga var ekki hægt að vinna, en samt varð að borga fólkinu kaup eða kostnað. Afar örðugt var að fá fólk í haust og dýrt, því allir voru þá uppteknir við sláturvinnu, þrátt fyrir tíðarfarið. Menn urðu að krafla í snjónum við haustverkin, sem votu ógerð þegar hríðarnar skullu á, og við að bjarga heyjum, sem úti urðu þegar snjóarnir skullu á. Á svona ósköpum átti enginn von, og drógu aðgerðir í húsum þangað til komið var í þessar klípur, og þarf ekki að undra, þó að slíkt hið sama yrði hjer í námunni. Í sumar var líka örðugt að fá menn í vinnu, og varð að ráða nokkuð af mönnum hjer að sunnan. Þess vegna var eðlilegt, að dregið væri til hausts að fullgera húsnæði o. fl., sem venjulega er hægt að koma í verk að haustlagi. Óhætt mun því að skrifa nokkuð af hallanum á reikning tíðarfarsins.

Eitt atriði var það sjerstaklega, sem kom mjer til að biðja um orðið. Það var um ábyrgðina í þessu máli. Jeg lít ekki svo á, að þingið sje með öllu ábyrgðarlaust um það, sem gert hefir verið, og hvernig gengið hefir. Frá mínu sjónarmiði hvílir ábyrgðin sameiginlega á stjórn og þingi. Þær hvatir um öflun innlends eldsneytis, sem komu til stjórnarinnar frá aukaþinginu 1916—17, voru mjög ríkar. Stjórnin, sem þá var að taka við völdum, var litið undir það búin að taka til framkvæmdanna þá þegar. Hæstv. atvinnumálaráðh. er búinn að skýra frá því, með hverjum aðdraganda og hvers vegna byrjað var á kolanáminu í þessari námu. Þegar svo þingið kom saman 1917, þá rak það svo eftir með kolavinsluna, að þótt stjórnin hefði hikað við að leggja út í að vinna námuna áður, þá var nú sjálfsagt að halda áfram. Þingsályktunin, sem samþ. var í fyrra, var beint eftirrekstur um kolanám. Aðrir ræðumenn hafa vitnað í ýmsa liði þessarar till., en jeg ætla að leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp 3. liðinn:

„Jafnframt ályktar Alþingi að heimila stjórninni fje úr landssjóði til nauðsynlegra framkvæmda í þessu máli, svo sem til verkfærakaupa, til torfbæja yfir verkamenn, til kaupa eða leigu á námum o. fl. þ. h.“

Þessi till. varð auðvitað til að herða á stjórninni með rekstur Tjörnesnámunnar.

Hjá því varð ekki komist, að kostnaðurinn yrði gríðarlega mikill, eins og öll vinna er dýr, og óhentugt að taka fyrir nokkurt fyrirtæki á þessum tímum. þingið hefir sama sem skipað stjórninni að gera þetta, þó allan undirbúning hafi vantað. Mjer dettur ekki í hug að bera það af mjer, að jeg hafi einnig átt þátt í þessu. Jeg er undir það búinn að taka á mig minn hlut af ábyrgðinni.

Þá kem jeg að yfirstjórn námunnar. Nefndin finnur að því, að ekki var fenginn verkfræðingur til að hafa yfirumsjón með verkinu, og er nú talið, að komið sje í gott horf, síðan vegamálastjórinn tók að sjer yfirstjórnina í vetur og vor. En hvernig átti stjórnin að setja hann yfir námugröftinn í fyrrasumar, þegar hann hafði yfirdrifið að gera annarsstaðar og gat ekki losað sig frá þeim störfum, sem hann hafði að gegna? Það var því ekki hægt að grípa til hans fyr en gert var.Menn munu segja, að þá hefði mátt fá einhvern annan. En það getur orkað tvímælis, hvort sá maður hefði staðið nokkuð betur í stöðu sinni en verkstjórinn, sem orðið hefir svo mjög að umtali, og það um of, að mjer virðist.

Þá er að nefna þær byggingar, sem þarna hafa verið reistar. Hjá því varð ekki komist, ef vinna átti í námunni að vetrarlagi, að byggja eitthvert íbúðarhús handa verkafólkinu. En enginn undirbúningur varð hafður undir þetta, því tíminn var svo naumur eftir að ákveðið var að halda vinnunni áfram yfir veturinn. Varð því að fá efni hvar sem kostur var á og kaupa dýran flutning á því að námunni. Byggingarnar hafa því valdið ótrúlegum kostnaði. Þá varð líka að setja upp bryggjur, til þess að hægt væri að skipa út kolunum. Jeg veit ekki betur en að þær sjeu reiknaðar með í byggingarkostnaðinum. Og þær urðu dýrar, það var mjer kunnugt um. Bryggjurnar eru að vísu ekki stórar; einungis lausabryggjur, sem færa má upp og ofan eftir sjávarföllum. — Svo eru ýmisleg áhöld, sem þurfti til vinnunnar. Það var ekki hægt um hönd að útvega þau í fyrrasumar. Varð því að smala saman vinnuáhöldum af skornum skamti, og stundum mun hafa verið bagi að óheppilegum og litlum áhöldum. — Þá er sprengiefnið. Eins og verkinu var hagað, var bygt mikið á því að hafa gott sprengiefni og nóg, til þess að mannsaflið kæmi sjer fyllilega við og gæti unnið gott verk. En það hefir vantað mikið á, að hægt væri að hafa nóg til af því. Ýmist var beint skortur á sprengiefni, eða til var einkum ljeleg tegund, sem tafði fyrir, svo segja varð upp mörgum af mönnum um veturnætur. En af hverju hefir þetta gengið svona? Það segir sig sjálft. Aðflutningsteppan og skipaferðirnar til Norðurlandsins hafa hjálpast að til að gera ókleift að útvega í tæka tíð það, sem þurft hefir á að halda. Vegamálastjórinn hefir sjeð um útvegun á áhöldum og sprengiefnum, og hann hefir efalaust sínar afsakanir fyrir því, að það hefir ekki gengið greiðar og hvorttveggja vantað, til stórbaga og vinnutjóns. Nú heyri jeg sagt, að vinna megi námur án sprengiefna, og þessi sænski verkfræðingur mun hugsa sjer að gera það, að vinna meir með hökum. En þau verkfæri voru ekki til, og vinnan var bygð á því, að unnið væri með sprengiefnum. Líka þarf sjerstaka vjel til að kveikja í skotunum, og það var svo ófullkomin vjel, sem fjekst til þess, líka vegna þess, að ekki var neinn undirbúningur fyrir fram.

Þá ætla jeg að minnast á ljóstækin og ljósmetið. Kostnaðurinn hefir orðið mikill við þetta, sem við er að búast, þar sem notað hefir verið mestmegnis kertaljós, sterinkerti og tólgarkerti, hvorttveggja í geysiverði, með litlu ljósmagni. Reynt var um tíma að nota lýsisljós, og var það miklu ódýrara, en eyðilagði loftið í námugöngunum, og mun hafa orðið að hætta við það þess vegna. Og það, sem bættist hjer ofan á, var það, að engin birta fjekst af þessum ljósum til þess að vinsa kol.

Nú er margsagt, að byrjað hafi verið á verkinu áður en útbúnaðurinn var fenginn. En þá kemur hitt til greina, að þingið rak á eftir. Það er einmitt þetta, að hjer var rekið á eftir öllu með afli, en framkvæmdirnar strönduðu á ótal agnúum og undirbúningsskorti.

Jeg skal fúslega játa, að ýmsar gerðir stjórnarinnar í þessu máli eru aðfinsluverðar. En hitt er engu síður vítavert, hvernig Alþingi hefir sigað stjórninni og rekið á eftir. Það hefir verið siður Alþingis að undanförnu að siga stjórninni áfram til eins og annars, gersamlega undirbúningslaust. Get jeg nefnt þar til dæmis landsverslunina, sem rekin var af stað án alls undirbúnings. Enn fremur get jeg nefnt dýrtíðarhjálparmálið í fyrra. Stjórninni var fengið það í hendur með mjög ófullkomnum undirbúningi; t. d. var kolaúthlutunin, sem kostaði landið um hálfa miljón, bygð á ramvitlausri skýrslu, er stjórninni var fengin í hendur. Nefna mætti og — í lægri nótum auðvitað — fánamálið. (B. J.: Konung skal til frægðar hafa, en ekki langlífis).

Þá skal jeg víkja að sjálfri þingsál. Jeg get ekki fallist á hana, þar sem farið er fram á, að hætt verði við kolavinsluna nú þegar. Jeg álít, að það felist ekki í skýrslu nefndarinnar, að hætt verði nú þegar, heldur skuli kolavinslunni haldið áfram fyrst um sinn, uns lokið hefir verið rannsóknum og tilraunum, sem nú standa yfir, svo að sjá megi með óyggjandi rökum, hvort námureksturinn svarar kostnaði. En jeg er nefndinni sammála um það, að eigi beri að reka kolavinsluna lengi með tekjuhalla. Og jeg finn ekki betur en stjórnin sje komin að sömu niðurstöðu. Hún hefir nú fengið erlendan sjerfræðing til þess að rannsaka námuna og standa fyrir verkinu í sumar, í því skyni að gera fullkomna tilraun með námu þessa. Og ef árangurinn verður ekki með versta móti, er þess að gæta, að vjer höfum svo brýna þörf á kolunum. Jeg er þess vegna þeirrar skoðunar, að ekki sje rjett að samþykkja þingsál.till. Því hefi jeg hugsað mjer, í samræmi við það, sem nú hefi jeg sagt, að leyfa mjer að bera upp og lesa, með leyfi hæstv. forseta, svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Landsstjórnin hefir nýlega komið á nýju skipulagi um stjórn Tungunámunnar, sett útlendan sjerfræðing til ýtarlegri rannsókna á henni og til að stjórna nýjum vinnuaðferðum við kolanámið. Má því búast við, að sæmileg reynsla fáist á þessu sumri um það, hversu námurekstur á þessum stað getur borið sig. Í því trausti, að landsstjórnin, að fengnum þessum upplýsingum, haldi eigi námurekstrinum áfram með verulegum halla fyrir landssjóðinn, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Jeg hygg, að nefndinni muni vera sama um þessa rökstuddu dagskrá. (G. Sv.: Við komum að því síðar).