22.05.1918
Neðri deild: 28. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í C-deild Alþingistíðinda. (1897)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Atvinnumálaráðherra (S. .J.):

Jeg mun áður hafa látið það í ljós, og jafnvel lofað því, að lengja ekki umr. um þetta mál sjerlega mikið, því að jeg bjóst við því, að ekki mundi mikið af nýjum upplýsingum koma fram í málinu.

Einhver hv. þm. sagði, — jeg held það hafi verið hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) — að þessar umr. myndu ekki verða búnar fyrir næstu helgi, en nú heyrist mjer á hv. frsm. (G. Sv.), að ekki þurfi að ræða mikið um till. eins og hún liggur fyrir, en í raun og veru hugsaði jeg, að allar umr. myndu snúast um till. og árangurinn af því, ef hún yrði samþ. Þá mun hv. frsm. (G. Sv.) hafa látið það í ljós, að jeg þyrfti altaf að hlaupast í burtu þegar hann talaði, en jeg hefi haft ákveðnar ástæður til þess að ganga frá; í gær var jeg að gegna máli í landssímanum, og áðan varð jeg að vera við í hv. Ed., en jeg þykist ekkert hafa að óttast hjá hv. frsm. (G. Sv.), og jeg skil það svo, að þessi missögn hans hafi ekki komið fram af því, að jeg var fjarverandi í gærkveldi. (G. Sv.: Hvaða missögn?). Sú, að jeg hafi fengið 500 krónur í ferðapeninga norður. Hv. þm. (G. Sv.) mætti þó vera kunnugt, að til er kvittun fyrir þessum peningum frá minni hendi, til gjaldkera námunnar, og að þessir peningar eru komnir þangað fyrir löngu, en það hefir vist verið þægilegra, einhverra hluta vegna, að ganga fram hjá því. Þá mintist.hv. þm. (G. Sv.) á skýrslurnar frá sýslumanninum. Sömu gögn og nefndin hefir fengið bera það líka með sjer, og jeg mintist á það í gær, að sjóðbók hefði verið haldin og reikningar gerðir af hálfu eftirlitsmanna námunnar á Húsavík. Þá sagði hv. framsm. (G. Sv.), að það hefði má ske verið vanrækt óviljandi að hafa sæmilega stjórn á námunni. Skal jeg að vísu ekki rengja, að eitthvað kunni að mega finna að stjórn hennar; slíkt má lengi finna, þegar skarpir áhugamenn fjalla um mál eftir á. En þá segir hv. framsm. (G. Sv.), að sig furði mest á því, að stjórnin skuli ekki þegar hafa kipt að sjer hendinni. Jeg skal nú leyfa mjer að útskýra þetta, þótt þess ætti ekki beinlínis að vera þörf. Það var sem sje ekki fyr en seint á síðastliðnu sumri, að afráðið var að halda námurekstrinum áfram yfir veturinn, og var svo ákveðið vegna þess, að annars gæti námureksturinn varla skoðast sem regluleg tilraun. Í tilefni af því var ráðist í að byggja þar hús og margt fleira. Svo var um nýársleytið, eins og sjálfsagt er talið um allar stofnanir, hvort sem það eru fjelög eða einstakir menn, farið að gera upp reikninga námunnar, en jeg verð að taka það fram, að það var ekki hyggilegt og ekki heldur hægt að kippa að sjer hendinni á síðastliðnu hausti, og finst mjer það heldur ekki ásökunarvert þó að það væri ekki gert, og auk þess komu reikningarnir ekki nærri strax hingað, sem ekki var heldur von til. — Jeg held það hafi verið hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), sem var einu sinni í þessari háttv. deild að vita reikningsskil sýslumanna og fleiri til stjórnarinnar, en það þykir má ske ástæða til að krefjast einhvers annars af þessu fyrirtæki heldur en hjá umboðslegum starfsmönnum. Þá vjek háttv. frsm. (G. Sv.) að því, að það hefði eins vel mátt biðja vegamálastjóra fyrir að sjá um og annast þetta fyrirtæki. Jeg tók það nú fram í gær, að hann var nær því frá upphafi til aðstoðar á ýmsa lund, en regluleg forstjórn þess var honum ekki fengin fyr en háttv. frsm.. (G. Sv.) hefir nefnt, en hann, (hv. frsm., G. Sv.), hefir ekki vitað það, eða þá gleymt því, að þá var fengin vissa fyrir því, að hann fengi hæfan mann frá útlöndum sjer til aðstoðar, og þess vegna átti hann hægra með að taka við því og sinna því, þar sem hann áður hafði eigi getað meira í þessu efni, sökum annara starfa. Jeg sje, að hv. framsm. (G. Sv.) er að skrifa hjá sjer athugasemdir við það, sem sagt er hjer í hv. deild; býst jeg nú við, þótt hann sje búinn að tala þrisvar í þessu máli, að við fáum að heyra 4. eða 5. ræðuna frá honum, hvort sem það er að rjettum þingsköpum eða ekki, en kann ske við fáum líka að heyra eitthvað alveg nýtt um málið nú hjá hv. frsm. (G. Sv.). Jeg tek undir það með hæstv. forsætisráðherra, að rjettast er að taka þetta mál ekki svo mjög í sambandi við verk stjórnarinnar, heldur eins vel Alþingis, og snúa sjer nú að því, hvort halda eigi áfram með reglulegar tilraunir eða ekki, eða ef menn vilja breyta um aðferð, að þá láti hv. þm. þann vilja sinn í ljós.