22.05.1918
Neðri deild: 28. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (1900)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætlaði mjer ekki að taka til máls að þessu sinni. En jeg hefi þó fundið ástæðu til að athuga ofurlítið einstaka atriði þessa máls.

Hæstv. forsætisráðherra gerði kolareikninginn upp á annan veg en aðrir hv. ræðumenn. Hann vildi sem sje halda því fram að vinslukostnaðurinn væri goldinn með kolunum. Það er að skilja, að kolin væru svo mikils virði, að ef smálestin væri seld á 100 kr., ættu þessar 1.500 smálestir að borga kostnaðinn. Þessi skýring er dálítið einkennileg. Því að með henni er gefið í skyn, að stjórnin hafi litið svo á, að heimilt hafi verið að selja kolin undir verði. Hið fyrsta, sem stjórnin var að athuga, var, hve háu verði skyldi selja kolin. Ef hún hefði verið þeirrar skoðunar að heimilt væri að selja kolin undir verði, eins og heimilað var í dýrtíðarlögunum, átti hún að skifta kolabirgðunun jafnt niður á sýslur landsins, eftir þörfum. En nú er því ekki að fagna, því að kolin úr þessari námu hafa öll runnið til Reykjavíkur, Eyjafjarðarsýslu og Akureyrar og Þingeyjarsýslu en að eins 175 smálestir til annara. staða á landinu. Og þar að auki er þess að gæta, að staðir þeir, sem næstir voru námunni, fengu kolin ódýrari en aðrir landshlutar, en urðu að greiða flutningskostnað. Þessi úthlutun hefir því komið svo misjafnt niður, að ekki getur komið til mála, að stjórnin hafi framkvæmt hana að vilja þingsins.

Þá gat hæstv. forsætisráðherra þess, að stjórnin hefði orðið að selja kolin verði, sem þau gátu selst fyrir. En hvar er þá eldsneytisþörfin, ef menn vilja ekki kaupa þau sanngjörnu hlutfallsverði við erlend kol?

Það var ótvírætt álit nefndarinnar, að rjettast væri að bjóða út námuna, því að reynslan væri sú, að það borgaði sig.

Hæstv. forsætisráðherra gat þess, að framkvæmdir hins opinbera væru dýrari en framkvæmdir einstakra manna. Þetta er rjett. En einkennilegt er það, að framkvæmdir stjórnarinnar skuli ekki borga sig eins vel framkvæmdir einstakra manna, sem hafa minna fje. Eitthvað hlýtur að vera athugavert við slíkt, og manni dettur í hug hirðuleysi um að inna verkið vel af hendi. Og mjer virðist auðsætt, að um líkt hirðuleysi hafi verið að ræða hjá stjórninni í kolamáli þessu, þar sem hún leitast ekki við að komast á snoðir um, hvaða verði væri hæfilegt að selja kolin, og selur þau svo íhugunarlaust út í bláinn og hækkar ekki á þeim verðið fyr en um nýár.

Nú ætlar stjórnin að halda kolanáminu áfram. En jeg fæ ekki skilið, að hún geti nú haldið því áfram hallalaust, án þess að gera sjer ljósa grein fyrir kolaverðinu. En hins vegar hygg jeg, að ef kolin verða seld því verði, er samsvarar framreiðslukostnaði, muni eftirspurnin verða minni en áður. Og þá rekur að þeirri spurningu, hvort ráðlegt sje að halda kolanáminu áfram. Nefndinni duldist ekki, að ætti að halda náminu áfram, yrði framleiðslukostnaður annars vegar og á hinn bóginn sanngjarnt verð á kolunum að verða samferða. En ef þetta reyndist ekki kleift, áleit nefndin sjálfsagt, að landsstjórnin hætti kolanáminu og byði námuna út.

Einkennilegt virðist það, að einstakur maður rekur kolanámu með hagnaði við hliðina á landssjóðsnámunni, og selur kolin þó lægra verði en landsstjórninni finst hæfilegt nú. En þrátt fyrir alt þetta finst stjórninni það altaf óvirðing í sinn garð, ef gerð er tilraun til þess að láta hana hætta við eitthvert fyrirtæki, sem hún er byrjuð á og hefir reynst óhæf að veita forstöðu. Jeg minnist landsverslunarinnar í fyrra. Henni var ekki ljúft að láta hana af hendi. Hjer er nú svo komið, að landsstjórnin hefir sjeð hentast að útvega sænskan verkfræðing til umsjónar með kolanámunni. Jeg skal láta ósagt, hversu þessi ráðstöfun er hyggileg. En áreiðanlega er hún spor í rjetta átt. En var ekki hægt að fá þennan mann í fyrra? (Atvinnumálaráðh.: það var ekki hægt). Mjer þykir einkennilegt, að stjórnin skuli ekki hafa sýnt fram á, hverjar tilraunir hún hefir gert í þá átt.

Hv. þm. Dala. (B. J.) kvað skýrslu nefndarinnar ófullkomna. En ástæða hans fyrir þessari staðhæfingu var sú, að hann hefði heyrt greinagóðan mann segja það. Önnur rök bar hann ekki fram, enda voru þau ekki til. En sannleikurinn er sá, að skýrslan er hlutdrægnislaust samin, eftir þeim gögnum, sem nefndin hafði til meðferðar, og hefir hún hvergi hallað rjettu máli. Hún hefir samið skýrsluna svo samviskusamlega, sem auðið var. Þar er hvergi farið með æsingum eða stóryrðum í garð stjórnarinnar. En þegar nefndin leggur til, að náminu skuli ekki haldið lengur áfram en sýnt er, hvort það svarar kostnaði, þá er þetta kallað árás á stjórnina. En slíkt er firra. Jeg spyr, hvort nokkuð þýði að vita gerðir slíkrar stjórnar, er tekur rjettmætar aðfinslur svo nærri sjer og flokkur manna skipar sjer um, til þess að verja alt óviðfeldið og átöluvert í fari hennar.

Hv. þm. Dala. (B. J.) tók það fram, að taka bæri tillit til, í hvaða verði kolin væru, en það er einmitt þetta, sem fær mann til að hugsa, að hægt verði að vinna kolin hallalaust með þessu verðlagi, og ef þau eru ekki keypt, þá er tvent til, annaðhvort að eldsneytisþörfin er ekki eins mikil og af er látið, eða þá að kolin eru ekki nógu góð. Jeg sje litla ástæðu til að fara út í einstök atriði eða að ræða málið yfirleitt lengur, því litlar líkur eru til, að meiri upplýsingar fáist í málinu en þegar eru fram komnar. Hver þm. hefir þegar fengið að sjá framkomu stjórnarinnar og varnir, og þær gefa ekki minsta tilefni til, að þingsályktunartill. verði ekki samþykt, heldur finst mjer hún þvert á móti vera nauðsynleg og sjálfsögð.