23.05.1918
Neðri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (1905)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Magnús Pjetursson:

Jeg get verið mjög stuttorður. það, sem jeg ætlaði að segja, eru að eins nokkur orð til að svara hæstv. forsætisráðh. Annars skal jeg ekki bæta miklu við umr., því hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir tekið af mjer ómakið. En þó hæstv. forsætisráðh. sje ekki við, þá get jeg ekki látið vera að athuga lítilsháttar það, sem hann sagði við umr. í gær. Hæstv. forsætisráðh. tók að sjer það hlutverk, sem má sannarlega kallast að svara fyrir barnið, sem sje að hjálpa fjelaga sínum í stjórninni — með sínu venjulega og alkunna bróðurþeli í þeirra garð. Annars kom ræða hans mjer nokkuð á óvart, því hún fór allmikið í bág við rjettsýni og rök.

Jeg skal þá víkja að því, sem hæstv. forsætisráðh. sagði út af minni ræðu. Hann sagði, að bæði till. hv. fjárhagsnefndar og eins það, sem jeg sagði, bryti í bág við þá stefnu, að afla innlends eldsneytis, jafnvel hvað sem það kostaði. það er alveg satt, að síðasta þing lagði mikla áherslu á það, að afla innlends eldsneytis, eins og þetta þing gerir líka. En þingið vildi láta afla innlendra kola til þess, að þau væru til í landinu, en ekki til þess að selja þau hinum og þessum undir verði, alveg á sama hátt og til var ætlast að landsstjórnin sæi landsmönnum fyrir matvörum, án þess þó að þær yrðu seldar undir sannvirði. Það átti að afla þeirra eins og hverra annara vörubirgða, sem hægt væri að fá keypt, við því verði, sem þau kostuðu, en ekki væri bruðlað út, undir sannvirði. Hallinn á rekstri námunnar er því heimildarlaus hjá stjórninni, — algerlega heimildarlaus. Enda er það stjórnin ein, sem með eftirlitsleysi, hirðuleysi og ráðleysi, hefir gert hallann svona mikinn, að minsta kosti.

Það er ekki hægt að segja, að stjórnin hafi hingað til álitið það skyldu sína, að gera alt, sem hægt var að gera, til þess að afla innlends eldsneytis. Sem dæmi skal jeg nefna, að áður en jeg fór af þingi í fyrrasumar, fór jeg þess á leit við hæstv. stjórn, að hún styrkti að einhverju leyti kolanám við Steingrímsfjörð. En jeg fjekk ekki annað svar en það, að nú væri verið að grafa kolin á Tjörnesi og stjórnin mætti til að leggja alla krafta sína í það, að vinna þá námu. Með öðrum orðum, stjórnin neitar algerlega um öll afskifti af kolanámi við Húnaflóa. Það mátti ekki bera annarsstaðar niður en í Þingeyjarsýslu. Þetta hefir líka sýnt sig síðan. Sýslunefndin í Strandasýslu sendi stjórninni ósk um stuðning — einmitt samkvæmt tillögu síðasta þings, — til að leggja akfæran veg frá námunni til sjávar, og lána verkfæri. Stjórnin veitti sýslunefndinni enga áheyrn, og því hefir ekkert miðað áfram, fyr en það nú var lagt fyrir þingið, — að því er jeg best veit, án nokkurs stuðnings frá stjórninni.

Annað atriði vildi jeg leyfa mjer að athuga hjá hæstv. forsætisráðherra. Jeg hafði drepið á það í fyrri ræðu minni, að einstakir menn mundu verða tregir á að‘ ráðast í kolaöflun, er þeir sjá, hvernig útkoman verður á námurekstri landssjóðs. Hæstv. forsætisráðherra vildi bera brigður á þetta. En álit mitt er þó staðfest í skjölum, sem gengið hafa gegnum stjórnarráðið. Vegamálastjórinn telur ekki glæsilegt að leggja í kolanám við Steingrímsfjörð, því vinnukostnaður hafi orðið svo mikill á Tjörnesi. Ef það er ekki ljóst, að þetta brjef heldur því fram, að kostnaðurinn á Tjörnesi geri óárennilegt að byrja á kolanámi annarstaðar, þá veit jeg ekki hvernig á að skilja það.

Þá var hæstv. forsætisráðherra að hnýta í okkur, sem tekið höfum til máls með tillögu fjárhagsnefndar, fyrir það að við sjeum að víta stjórnina út af Tjörnesmálinu; hvort ekki mætti velja annan tíma og annað tækifæri til þess. Að sjálfsögðu væri hægt að fá nóg tækifæri til þess að víta stjórnina. En ef landið á að reka áfram þetta fyrirtæki, þá verður þingið að ráða fram úr hvernig því skuli fyrirkomið framvegis, eða hvort og hve nær hætt skuli við það, ef það getur ekki lánast. Við þurfum einnig sannarlega að sannfæra allan almenning um það, að það sje einungis hirðuleysi stjórnarinnar að kenna, en ekki neinu öðru, að þessi námurekstur hefir orðið svo dýr. Það er eina ráðið til þess, að afstýra þeim voða, sem annars gæti af því hlotist, ef menn væru hræddir við að leggja í öflun innlends eldsneytis, vegna þessa kolaverðs.

Þá er enn eitt í ræðu hæstv. forsætisráðherra, sem mjer dettur í hug, þegar minst er á kolaverð. Hann sagði, að það væri ekki skaði fyrir landið, þó halli yrði á rekstri námunnar. Þar sem hitagildi Tjörneskolanna væri svo mikið, að meta mætti hverja smálest 100 kr. virði þar á staðnum, þá væri verð kolanna, sem upp hafa verið tekin, alveg fyrir kostnaðinum við að ná þeim. Hæstv. forsætisráðherra tók það fram, að þetta væri ekki ofhátt verð fyrir Tjörneskolin, þegar smálestin af útlendu kolunum væri á 360 kr. Mjer kom það nokkuð spankst fyrir, að heyra þetta verð, því áður hafði jeg ekki heyrt nefnt hærra verð en 300 kr. smálestina. Spurðist jeg því fyrir hjá landsversluninni um kolaverð og fjekk þær upplýsingar, að nú væru kol seld á 325 kr., af síðasta farmi, en alt annað á 300 kr. Það er þó lægra en 360 kr. Væru nú Tjörneskolin reiknuð á 100 kr. smálestin á staðnum, þá yrðu þau nokkuð dýr, þegar búið væri að flytja þau til kauptúna víðsvegar á landinu, t. d. hingað til Reykjavíkur. Má þar miða við kolin, sem bæjarstjórn Reykjavíkur keypti af námunni í fyrra. Þá var smálestin seld á 35 kr. við námuna, en komin til Reykjavíkur, voru þau seld á 100 kr. Geri jeg ráð fyrir, að bæjarstjórnin hafi ekki sjeð sjer fært að selja þau lægra verði. Eftir því ættu kolin að kosta 165 kr. smálestin hjer í Reykjavík, með því verði, sem hæstv. forsætisráðherra telur nú sanngjarnt. Þá veit jeg að menn skoða ekki huga sinn um það, hvort þeir eigi heldur að kaupa útlend kol fyrir 325 kr. smálestina, eða innlend kol, eins og þau koma úr stjórnarnámunni á Tjörnesi, fyrir 165 kr.

Þá ætla jeg ekki að segja meira til hæstv. forsætisráðherra, fyrst hann er ekki við. En eina setningu í ræðu háttv. þm. S.-J. (P. J.) finst mjer ástæða til að athuga; hann sagði, að ef þingið samþykti þessa tillögu, þá væri það í ósamræmi við það, sem gert væri fyrir kolanám annarsstaðar, t. d. í Gunnarsstaðagróf.

Jeg held að hv.þm. (P. J.) hefði ekki átt að bera þessar námur saman, þegar verið er að tala um að leggja í kostnað. Við Tjörnesnámuna er búið að leggja 50.000 kr. í kostnað, — í staðinn fyrir 2.000 kr. við hina námuna, — í viðbót við hallann á rekstrinum. í Steingrímsfjarðarnámuna á að eins að leggja fje samkv. þingsál.till. síðasta þings, til undirbúnings og áhalda, en alls ekki til afsláttar á kolunum. Þau eiga að seljast með sannvirði. Auk þess eru þessar 50 þús. kr., sem jeg áðan nefndi, sams konar og þær 2.000, en þær eru þegar komnar í hús og tæki og ekki er meiningin með tillögunni að kolagröftur framvegis eigi að borga þann kostnað, heldur að eins bera vinnureksturinn. Þetta er því ómögulegt að bera saman, og hin mesta endileysa hjá hv. þm. (P. J.).

Háttv. þingm. Dala (B. J.), sagði, að það væri þinginu að kenna hvernig farið hefði. Það hefði ekki tekið það fram, að útvega skyldi útlendan námuverkfræðing, til þess að sjá um verkið. Stjórnin hefði því í raun og veru ekki haft neina heimild til að gera það. Nú hefir hæstv. stjórn upplýst, að hún hafi, þrátt fyrir alt, verið að leitast við að fá útlendan verkfræðing og nú loks fengið hann. Hún hefir því ekki talið sjer óheimilt að gera það, enda dettur víst engum í huga að álasa henni fyrir það. Það er eitt af því sárfáa af viti, sem stjórnin hefir gert í þessu máli. Þetta er því út í loftið talað hjá hv. þm.(B. J.).

Hjer eru komnar fram tvær rökstuddar dagskrár, frá háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) og hv. þm. A.-Sk. (Þorl J.). Hefi jeg talsvert við þær að athuga, þó minna við dagskrá háttv. þm. A.-Sk. Helst hallast jeg að tillögu fjárhagsnefndar og álít að hana ætti að samþykkja, eftir þær skýringar, sem háttv. framsm. (G. Sv.) hefir gefið á henni. En ef einhverjir væru, sem heldur vilja fara dagskrárleiðina, þá leyfi jeg mjer að koma fram með svohljóðandi brtt. við dagskrártillögu háttv. þm. A.-Sk.

„Dagskráin orðist svo:

Sýni það sig í sumar, að ekki sje hægt að selja kol úr Tjörnesnámunni því verði, sem þarf til þess, að náman verði rekin hallalaust fyrir landssjóð, undir hæfri stjórn, álítur deildin rjett, að hætt sje við námureksturinn á landssjóðs kostnað og reyna þá að leigja námuna út, og með áskorun til stjórnarinnar að taka þetta ráð, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Jeg býst við því, að jafnvel háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) geti greitt atkvæði með þessari dagskrá, því í henni er ekki nefnt neitt um traust til stjórnarinnar, enda ætti það illa við í þessu máli, og síðbúið mun það verða frá mjer.