11.06.1918
Efri deild: 41. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

36. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Torfason):

Það sjer á ræðu háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.), að hann var ekki staddur á fundi deildarinnar við upphaf þessarar umræðu. Þetta kom berlega fram, er hann var að tala um 2., 3. og 4. brtt. á þgskj. 322. Það má segja um allar þessar tillögur, að þær sjeu óþarfar, því að það, sem brtt. eiga að skýra, kemur sæmilega skýrt fram í frv., og um 4. brtt. ber enn fremur að geta þess, að 3. brtt. nefndarinnar á þgskj. 317 hefir lagað þar það, sem áfátt var, og af orðalagi á 3. gr. c er það ljóst, að gengið er út frá því, að leigusamningur sje þinglesinn og stimplaður um leið og hann er afhentur til þinglestrar.

5. brtt. á þgskj. 322 getur ekki staðist eins og hún er orðuð.

Í frv. er bannað að neita um stimplun, þótt stimpilgjaldið sje ekki greitt strax, ef það getur valdið hlutaðeiganda rjettarmissi eða verulegum óþægindum, og er slíkt eins dæmi í lögum. En þar sem þetta er tekið svo berlega fram, þá er ekki hægt að líta öðruvísi á en að innheimtumaður beri ekki ábyrgð á stimpilgjaldi því, sem frestur er veittur á samkvæmt þessu ákvæði 9. gr. En háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) vill færa yfir á innheimtumanninn ábyrgð á þessu stimpilgjaldi, sem frestur er veittur á með greiðsluna, og það er líka eins dæmi í lögum, og verð jeg þá að segja, að jeg fyrir mitt leyti tel ákvæði frv. talsvert betri en brtt. Eigi er heldur hægt að samþykkja þessa brtt., ef gætt er nánar að orðalagi 9. gr. Síðar í greininni segir svo: „Eigi má heldur fresta afgreiðslu skjals“ o. s. frv. Þetta orðalag fellur eins og flís við annað orðalag greinarinnar; má segja, að greinin sje þar samsteypt heild, en aftur er þetta orðalag í mótsögn við 5. brtt. háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.). Þetta sjá allir, er þeir athuga greinina og brtt.

En fjórar síðustu till. á þgskj. 322 eru að eins dilkar eða taglhnýtingar fyrstu till. á þgskj. 322, sem er um það að hækka innheimtulaunin um helming frá því er segir í frv. Eins og jeg tók fram við 2. umr., þá játa jeg það fúslega, að þessi brtt. er í sjálfu sjer sanngjörn og rjettmæt, og herðir það á till., að jafnósjerdrægur maður og háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.), maður, sem situr í einu besta, eða best launaða, embætti landsins, ber hana fram. En nefndin ber kvíðboga fyrir því, að ef brtt. yrði samþykt, þá gæti það orðið frv. að falli í háttv. Nd., og þar sem landssjóði er mjög mikil þörf meiri tekna, þá vill nefndin ekki tefla málinu í tvísýnu eða samþykkja það, sem orðið gæti því að falli.

Nefndin telur því 2., 3. og 4. brtt. á þgskj. 322 óþarfar, 5. brtt. er hún mótfallin og 1. brtt. telur hún ekki ráðlegt að samþykkja, vegna þess, að með því gæti málinu verið stofnað í voða.