11.06.1918
Efri deild: 41. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

36. mál, stimpilgjald

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg verð að vera algerlega á mótsettri skoðun við háttv. þm. Ísaf. (M. T.) um 4. brtt. á þgskj. 322.

Samkvæmt 1. gr. frv. á að stimpla t. d. byggingarbrjef fyrir kirkjujörðum, því að þau eru gefin út af og afgreidd af embættismanni, en samkv. 6. gr. í á að reikna gjaldið, og það er ekki hægt að sjá annað en að stimpla eigi byggingarbrjefin, jafnt fyrir það, hvort þau eru þinglesin eða ekki. Annars er þetta atriði svo ljóst, að jeg hirði ekki að karpa um það við háttv. þm. Ísaf. (M. T.). Það geta allir háttv. þm. dæmt um það sjálfir með því að lesa greinarnar.

Jeg skal játa það, að mjer hefir skotist yfir þetta orðalag síðar í 9. gr., sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.) var að tala um, en þetta má lagfæra með því að fella niður orðið „heldur“. Yrði orðalagið á þessu þá svo: „Nú er stimpilgjald eigi greitt þegar í stað, og má þá veita frest á greiðslu þess, ef það getur valdið hlutaðeiganda rjettarmissi eða verulegum óþægindum, og skal þá innheimtumaður innheimta gjaldið síðar. Eigi má fresta afgreiðslu skjals …“ Jeg hefi samið skriflega brtt. um það að fella orðið „heldur“ niður, og vona jeg, að hæstv. forseti leyfi, að hún sje borin upp, þótt hún sje skrifleg (Forseti: Já) og að háttv. deild samþykki það.

Um innheimtulaunin vil jeg ekki heldur deila við háttv. frsm. (M. T.). Jeg álít þá upphæð, er jeg ber fram, sanngjarna, og hv. frsm. hefir margviðurkent það og nú síðast í ræðu sinni. Og við eigum að samþykkja það, sem við teljum sanngjarnast og rjettast, án tillits til þess, hvað aðrir óska, hvort svo sem það er háttv. Nd. eða aðrir.

Um það, hvor okkar háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sje eigingjarnari eða hvor okkar sje betur launaður, ætla jeg mjer ekki að deila. Jeg sje ekki, að það komi nokkra minstu vitund við því máli, sem hjer liggur fyrir, og jeg er ekki vanur að blanda öldungis óviðkomandi málum inn í umræður um óskyld mál.