30.05.1918
Neðri deild: 35. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í C-deild Alþingistíðinda. (1925)

86. mál, dýrtíðaruppbót handa barna- og lýðskólanum í Bergstaðastræti

Flm. (Björn Kristjánsson):

Við flm. höfum leyft okkur að koma fram með þessa tillögu eftir ósk skólastjórans. Hann hafði, eins og fleiri, sótt um að fá dýrtíðaruppbót eftir lögunum, sem samþykt voru á þinginu í fyrra. En stjórnin; var í vafa um, hvort skilja ætti lögin svo, að þessum skóla bæri dýrtíðaruppbót. Samt lofaði stjórnin að beina því til þingsins. Var hún nærri því að telja skóla þessum bera dýrtíðaruppbót samkvæmt lögunum.

Á hinn bóginn var ekki hægt annað að sjá og heyra en að háttv. fjárveitinganefnd væri með því, að skólinn fái dýrtíðaruppbót, enda er hann eini skólinn, sem hlotið hefir allsherjarviðurkenningu stjórnarráðsins, fyrir utan Landakotsskólann, og ekki fær dýrtíðaruppbót. Eftir að hafa grandskoðað lögin get jeg ekki annað sjeð en að rjett sje að greiða þessa dýrtíðaruppbót samkvæmt þeim. Þó skal jeg ekki fullyrða, að ekki sje með þessi lög eins og öll önnur, að þau hafi tog. Jeg veit, að lögfræðingar benda á fyrirsögn laganna og segja, að samkvæmt henni geti ekki verið um það að ræða að borga skólum dýrtíðaruppbót, því einungis sje þar talað um embættismenn og sýslunarmenn landssjóðs. En svo er þessi fyrirsögn til komin, að stjórnin ætlaðist ekki til þess, þegar hún bjó til frumvarpið, að aðrir fengju dýrtíðaruppbót en þeir, sem stæðu í beinni þjónustu landssjóðs. En svo breytti þingið frumvarpinu og bætti öðrum mönnum inn, svo sem barnakennurunum, en fyrirsögninni var ekki breytt. Fyrirsögnin segir því ekki til þess, hverjir skuli fá dýrtíðaruppbót, en lögin verða að segja til þess sjálf.

Áður en jeg tala um hina ástæðuna vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp 6. liðinn í 1. grein laganna. Hann hljóðar svo:

„Öllum föstum kennurum við fasta skóla, jafnvel þótt þeir falli eigi undir neinn hinna framantöldu flokka, ef kensla verður að teljast aðalstarf þeirra, svo og stundakennurum landsskólanna.“

Jeg hefi heyrt lögfræðing skýra þetta á þann veg, að „fastir skólar“ væru ekki aðrir en skólar landssjóðs. En þeir skólar væru ekki „fastir“, er komið væri undir geðþótta skólastjóra, hvort lagðir væru niður.

Þetta væri eðlilegur skilningur, og jeg gæti vel fallist á hann, ef honum hefði verið fylgt frá upphafi. En nú hefir það ekki verið gert. Aðrir skólar hafa fengið dýrtíðarstyrk, bæði Hvítárbakkaskólinn, skólinn að Núpi og Hvammstangaskólinn.

Þar sem þessum skilningi hefir ekki verið fylgt, kemur hann ekki heldur til greina hjer. En úr því sje jeg ekki annað en að skólum beri dýrtíðarstyrkur.

Annars ætla jeg ekki að gera það að kappsmáli, hvernig lögin eru skilin, heldur hitt, að skólinn fái styrkinn og að þingið liti þeim sanngirnisaugum á þetta mál.

Skóli þessi hefir nú starfað sem fastur skóli síðan 1904 og aldrei lagst niður. 2. apríl 1910 veitti stjórnarráðið honum, eftir tillögum fræðslumálastjóra, allsherjarviðurkenningu, samkv. lögum nr. 37, 30. júlí 1909. Er hann hinn eini skóli hjer á landi, sem hlotið hefir þessa viðurkenningu, auk barnaskólans í Landakoti. — Reglugerð skólans er staðfest af stjórnarráðinu 31. mars 1910.

Jeg vil enn fremur benda á, að þótt dýrtíðarstyrkur þessi verði veittur, hefir það engin eftirköst. Enginn skóli annar á jafnmikinn rjett á styrk. Það er öllum kunnugt, að skólastjórinn hefir haldið skólanum uppi í vetur með vanalegu fyrirkomulagi, þrátt fyrir dýrtíðina. Auðvitað var skólinn honum til byrði, en hann vildi ekki láta það koma fyrir, að skólinn legðist niður. Það er og kunnugt, að skólastjóri er ágætur kennari og stjórnari, enda hafa nemendur hans viðurkent það í verki.

Upphæðin, sem um er að ræða, er að eins kr. 1.090,00, sem sje uppbót af launum tveggja kennara kr. 1.020,00, og fyrir eitt barn kr. 70.00.

Þetta munar landssjóð ekki mikið um, en fátækan mann mikið.

Við flm. till. væntum því þess, að deildin taki þessu vel og sje svo sanngjörn að veita styrkinn.

Af því að umsóknin hefir legið fyrir fjárveitinganefndum beggja deilda, og þær munu málinu hlyntar, sje jeg ekki ástæðu til, að því sje vísað í nokkra nefnd, að svo komnu. En kjósi hv. deild það heldur, mun jeg ekki hafa neitt á móti því.

Læt jeg svo útrætt um þetta mál, í þeirri von, að hv. deild láti þennan skóla njóta sama styrks sem aðra skóla.