28.06.1918
Efri deild: 53. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í C-deild Alþingistíðinda. (1936)

86. mál, dýrtíðaruppbót handa barna- og lýðskólanum í Bergstaðastræti

Frsm. meiri hl. (Eggert Pálsson):

Eins og háttv. þingdeildarmenn sjá, þá er svo skýr stefnumunur milli meiri og minni hl. nefndarinnar, að öllum má ljóst vera. Jeg get tekið það fram, að frá okkar hálfu, meiri hl. manna, er ekki minsti snefill af kappi um málið, og eins mun vera um hv. minni hl. nefndarinnar. Aðalmunurinn liggur í því, sem hv. frsm minni hl. (K. D.) mintist á; hann álítur, að skólinn sje í eðli sínu styrkþegi landssjóðs, líkt og aðrir fastaskólar, sem styrkur er veittur, en meiri hl. álítur, að svo sje ekki og hafi ekki verið á síðustu fjárhagstímabilum. Það hefir að vísu sjerstaklega verið farið fram á styrk úr landssjóði handa þessum skóla, en ekki tekist að fá hann, enda er hans hvergi getið í fjárlögunum. Og þar sem nú svo er ástatt, að skóli þessi hefir ekki fengið neinn fjárstyrk beint úr landssjóði, þá getur ekki um neina uppbót frá landssjóði verið að ræða honum til handa, því uppbætur geta ekki komið til greina nema þar, sem eitthvað er til að bæta upp.

Það er vikið að því í nál., að þetta geti skapað varhugavert fordæmi, og jeg hygg, að þar sje ekki rangt á litið.

Það getur vel hugsast, að svipað fyrirkomulag komist á víðar, að hreppsnefndir sletti einhverjum smástyrk í svipaðan skóla, til þess að hann komist svo inn í landssjóð að slíkum bakdyrum sem þessum, er hv. minni hl. vill opna.

Því er að vísu haldið fram af háttv. minni hl., að slíkir skólar þurfi að hafa reglugerð, samþykta af fræðslumálastjóra, en jeg sje ekki, að hann mundi hafa neitt á móti því að samþykkja þær reglugerðir, og það því síður er hann sæi, að með því væri vegur til þess að ná í meira fje til fræðslumála.

Aftur á móti vil jeg geta þess, að við vorkennum mönnum þeim, sem hjer er um að ræða, engu síður en minni hl., og það er ekki styrksins vegna, að við leggjumst á móti þessu, heldur af því, að við lítum svo á, að hjer sjeu ekki farnar rjettar leiðir.

Við álítum, að það hefði verið miklu eðlilegri leið að gera skóla þennan að nokkurskonar deild úr barnaskólanum. Þess er og full þörf, og er meira að segja við búið, að bæta þurfi við fleiri deildum, því eftir því, sem bærinn stækkar, verður það óþægilegra að hafa barnaskólann allan á sama stað. En hefði nú skóli þessi verið ein deild af barnaskólanum, þá hefði auðvitað enginn haft á móti því, að menn þessir hlytu uppbót eins og aðrir kennarar barnaskólans.

Annars viljum við ekki gera þetta að neinu kappsmáli, en leggjum það alveg á vald deildarinnar.