28.06.1918
Efri deild: 53. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (1937)

86. mál, dýrtíðaruppbót handa barna- og lýðskólanum í Bergstaðastræti

Frsm. minni hl. (Kristinn Daníelsson):

Hv. frsm. meiri hl. (E. P.) sagði, að skóli þessi hefði ekki fengið neinn styrk úr landssjóði, og því gæti ekki verið um neina uppbót að ræða.

Jeg sýndi þó fram á, að svo væri í raun og veru, og skil jeg ekki, að hv. þm. (E. P.) skuli ganga fram hjá röksemdum mínum. Það má að eins kalla tilviljun, að bæjarsjóður hefir stílað þannig miðlun sína af styrknum, að formið er ekki fullkomið fyrir því.

Hann sagði líka, að þingið hefði ekki vilja styrkja skólann, og mun það rjett, að það hefir ekki fallist á að veita honum sjerstaklega styrk á sitt nafn, þar sem það veitir styrk til skólahalds í kaupstöðum, sem nær og til þessa skóla. Hann hefir getið sjer besta orð og fengið almenna viðurkenningu, og finst mjer æði hart að láta kennara gjalda þess, að þeir hafa ráðist til kenslu við þennan skóla, þótt einhverja agnúa megi finna á forminu.

Jeg tel ekki þýða að bæta hjer meiru við, en legg málið á vald deildarinnar.