04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (1946)

110. mál, lán til kolanáms

Sigurður Stefánsson:

Jeg hefi ef til vill sagt of lítið áðan. Mál þetta hefir þegar verið í bjargráðanefnd. Þótt þar heyrðust svipaðar raddir og hjer hafa nú kveðið við um hríð, þá heyrði jeg þó suma vera því hlynta. Jeg get ekki sagt, hvað hv. bjargráðanefnd muni gera við málið. En jeg er heldur með því, að þetta lán sje veitt. Og því verð jeg að mótmæla, að Vestfirðingar sjeu nokkuð áleitnari í umsóknum til þingsins en aðrir. Jeg bjóst heldur við, að það yrði sagt þeim til lofs, að þeir hefðu lítið leitað til þingsins um fjárveitingar. Þeir leita nú ekki neinnar fjárveitingar, en fara að eins fram á lán. Getur vel verið, að þeir fái það ekki, en þá nær það ekki lengra. En þeir skuldbinda sig til að borga lánið alt á vissum tíma, og það get jeg ekki kallað áleitni, er öll önnur sund eru lokuð. Og ekki er nema eðlilegt, að þeir leiti til landssjóðs, eins og nú er komið. Þeir, sem segja, að auðvelt sje að vinna kol á Vestfjörðum, tala svo af ókunnugleik. Jeg held, að óvíða sje verra aðstöðu. Það var alveg rjett lýsing, sem hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) gaf á afstöðu þessara mókolalaga á Vestfjörðum, og tek jeg undir það, sem hann mælti þar um. Jeg líka lýst yfir því, að þessi kol eru með skárri mókolum vestra.

Jeg vil nú heldur, að málinu sje vísað til bjargráðanefndar, en að það sje felt þegar í stað. En tíminn er orðinn naumur, og gæti það orðið til þess, að málið dæi út, en það álít jeg ekki rjett.