04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (1947)

110. mál, lán til kolanáms

Gísli Sveinsson:

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem jeg hefi áður sagt. Að eins vildi jeg benda á, að síðustu ummæli hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hafa varla við rök að styðjast, því að honum hlýtur þó að vera kunnugt, að nýlega hefir verið samþykt hjer í þinginu að veita einum hreppi á Vestfjörðum allstórt lán (S. St: Já). Hann hefir þá sýnilega ekki meint það, sem hann sagði um þetta atriði.

Í öðru lagi þarf ekki um það að þrátta, að á Vestfjörðum er einna mest af kolum og surtarbrandi á öllu landinu, og þar eru þau einna best. Þetta verð jeg að segja að sje hlunnindi, sem þessi landshluti hefir fram yfir flesta aðra á þessu landi. Sumir landshlutar eru svo settir, að þeir hafa engin slík hlunnindi, engan surtarbrand og engin kol, svo að brennandi sje, og jefnvel engan mó heldur. Þar hafa menn ekkert að brenna nema áburð sinn, eins og jeg hefi áður bent á, og svo má ske hrís að einhverju litlu leyti. Þess vegna sje jeg ekki ástæðu til, að landssjóður hlaupi undir bagga með hreppum á slíkum stöðum sem þessum. Og ef hreppurinn getur ekki unnið sjer eldsneytið sjálfur, þá er honum innan handar að ná eldsneytinu hjá fjelögum þeim, sem reka kolanám á Vestfjörðum, t. d. í Dufansdal og víðar.

Hvað snertir það, sem hv. flm. (M. Ó.) ljet um mælt, að það væri ekki eðlilegt, að hreppurinn leitaði til landssjóðs um lán, þá skal jeg taka það fram, að það er alger misskilningur, sem kom fram í þeim orðum hans. Landssjóður er ekki og á alls ekki að vera lánsstofnun, öðru nær. En það er út úr neyð, að sú regla eða óregla er farin að tíðkast að lána mest úr landssjóði. Jeg held, að hann hafi öðrum hnöppum að hneppa, annað við fje sitt að gera en veita það til lána. Það liggja ekki heldur fyrir neinar skýrslur um það frá þessum hreppum, hvar þeir hafi leitað láns, eða að þeir geti ekki fengið lán annarsstaðar. Hitt verður ekki heldur um deilt, að það að lána með 5% vöxtum eru miklu betri kjör en líkur eru til að landssjóður geti fengið fje með að láni. Og hafi enginn annar viljað lána þetta fje, vegna ónógrar tryggingar, þá er tryggingin ekki meiri eða öruggari, þótt landssjóður eigi í hlut sem lánveitandi.

Jeg get nú í rauninni ekki sjeð, að mál þetta eigi erindi í nefnd. Það er sjálfgefið, að nú líður að þinglausnum. Og þar sem ekki er betur sjeð fyrir fjárhag landsins en hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir oftlega, og að mörgu leyti rjettilega tekið fram, þá virðist ekki ástæða til að verða við slíkri beiðni sem þessari.