06.07.1918
Neðri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í C-deild Alþingistíðinda. (1954)

110. mál, lán til kolanáms

Hákon Kristófersson:

Jeg verð að segja, að þetta mál getur varla talist skylt málaleitun þeirri, sem hjer var áður til meðferðar úr Strandasýslu.

Mjer var brugðið um, að jeg væri á móti þessari lánveitingu, af því að hún fjelli ekki til Barðastrandarsýslu. En jeg hygg, að síst sje hægt að bregða mjer um það, að jeg hafi sjerstaklega gert mjer far um að afla Barðastrandarsýslu fjár úr landssjóði, þó að jeg hafi fengið nokkrar þúsundir að láni handa sýslunni. Jeg lít svo á, að þetta mál heyri til bjargráða, og þingið er til þess saman komið að ráða slíkum málum til lykta. En hagur landssjóðs stendur nú ekki svo vel, að hann hafi fje aflögum. En hins vegar get jeg fallist á það, að landssjóð beri bein skylda til að rjetta þeim hjeruðum hjálparhönd, sem vilja ráðast í einhver þjóðþrifafyrirtæki, en þau geta ekki risið undir af eigin ramleik. Og þegar litið er til hins mikla fjárausturs, sem landssjóður jós í Tjörnesnámuna, þá er hart að neita þessari lánbeiðni. Og jeg mun sýna það með atkvæði mínu, að jeg lít ekki eingöngu á hag Barðastrandarsýslu, heldur og hvers hjeraðs, sem hjálpar þarfnast. Í því efni hefi jeg ekki álitið mig vera þm. eins kjördæmis, heldur alls landsins.

Hv. þm. Dala (B. J.) gat þess, — þó að það kæmi í raun og veru ekki þessu máli við — að jeg og annar þm. mundum hafa ráðið sjálfstæðismálinu svo til lykta, að við þættumst geta farið heim af þingi. Jeg hefi aldrei minst á það, að þetta mál tefði heimför mína eða annara, og hv. þm. (B. J.) hefði vel getað staðið sig við að minnast ekki á það.

Þá sagði hv. þm. (B. J.), að ómannlega hefði verið tekið undir beiðni Strandamanna. En jeg held, að þeim óskum, sem þeir komu með til þingsins, hafi verið fullnægt að mestu leyti, svo hjer hafi háttv. þingm. ekki munað rjett.

Jeg mun ekki skoða huga minn um að greiða atkv. með þessari tillögu. Vildi jeg líka leyfa mjer að skjóta því til hv. þm., þeirra sem mótsnúnir eru tillögunni, að það er betra að koma fram með brtt. um þau atriði, sem helst eru þyrnar í augum, t. d. um fjárupphæðina, heldur en að fella það nú þegar.