06.07.1918
Neðri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í C-deild Alþingistíðinda. (1955)

110. mál, lán til kolanáms

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Það er síður en svo, að mjer eða meiri hluta nefndarinnar sje nokkurt kappsmál, hvernig þessu máli reiðir af. Að eins vil jeg geta þess, að hv. nefnd vantaði þær upplýsingar um málið, sem nauðsynlega þurfti. Jeg var ekki við, er hv. flm. (M. Ó.) talaði um málið áður og þóttist hafa gefið upplýsingar um það. En jeg get getið mjer nærri, hvernig muni vera um slíkt fyrirtæki sem þetta. Og veit jeg uppá hár, að hægt hefði verið að fá lánin annarsstaðar en hjá landssjóði. Það var góð upplýsing, sem hv. flm. (M. Ó.) gaf um það, að vegurinn, sem leggja þyrfti, væri ekki lengri en ¾ úr kílómetra. Einhvern tíma hefði mönnum ekki blöskrað að leggja í slíkt án þess að fara í landssjóð og biðja hann um lán. Og það ætti satt að segja ekki að vera vorkunn mönnum þar vestra, þar sem þrír hreppar eiga hlut að máli, að hrinda fram þessu verki.

Jeg get vel skilið, að kolin seljist ekki fyr en veturinn 1918—’19, en það þarf þá ekki heldur meira en 6 mánaða bankalán til þess, að það fáist greitt aftur með verði kolanna, en alls ekki lán til 5 ára úr landssjóði. Þá benti hv. flm. (M.Ó.) á, að þeir hefðu leitað til þingsins af því, að gott hljóð hefði verið í því að undanförnu um að styrkja slík fyrirtæki. En eftir því, hvernig kolin eru og hverjar kringumstæðurnar, eftir því fer, hvort rjett er að styrkja svona fyrirtæki eða ekki. Mjer þykir leiðinlegt, að hæstv. stjórn skuli ekki vera við, til þess að geta sagt skorinort, hvort hún geti í raun og sannleika lánað þessa upphæð sem dýrtíðarlán, eða þá hvort ekki mundi fara um slíkt lán eins og fór með dýrtíðarlánin á síðasta þingi, að þeim var neitað, því ekki var hægt að efna loforðið. En slík loforð sjá allir að geta orðið til stórtjóns, því þau bregðast er mest á reynir.