06.07.1918
Neðri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (1959)

112. mál, gistihússauki í Borgarnesi

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þessa tillögu sakir þess, að það kemur svo oft fyrir í Borgarnesi, að menn þurfa að leita gistingar hjá þessum manni, sem nú sækir um styrk til að stækka og bæta hús sitt. Það hefir komið fyrir, að hann hefir orðið að ganga sjálfur úr rúmi, til þess að fólk lægi ekki úti í Borgarnesi. Það mætti nú kann ske segja sem svo, að þinginu kæmi ekki mikið við að styrkja þetta, og að fleiri staðir gætu komið og beðið um sama; en hjer stendur sjerstaklega á; hjer eru ákvæði landsstjórnarinnar um, að póstleið skuli liggja þarna, og þangað sækir fólk úr öllum landsfjórðungum og verður að nema þar staðar. Þar verða menn líka að vera við því búnir að stiga á skip, og sími er ekki til næstu bæja, svo að menn eru neyddir til að gista í Borgarnesi, til þess að missa ekki af bátnum, og þegar af þeim sökum er nauðsyn á fyrir menn að gista þar, og þá hafamenn dálitla kröfu til þess, að þar sje einhver staður, sem menn geti gist á, og er mjer sagt, að margir af þeim hv. þingm., sem hjer eru, .mundu hafa orðið nauðulega staddir, ef þessi maður hefði ekki gengið nærri sjer að hýsa þá og gengið úr rúmi fyrir þá. Það er skiljanlegt, að ekki er hægt fyrir nokkurn mann að hafa nógu stórt hús til að hýsa alla, sem þar koma, þegar ferðamannastraumurinn er mestur. Svo er á það að líta, að húsið stendur autt nær allan ársins hring; af því mun það vera, að gestgjafinn í Borgarnesi hefir orðið að neyðast til að leigja út hús sitt, en svo getur hann náttúrlega ekki komið þeim leigjendum út.

Nú hefi jeg gleymt að taka það fram, til hve langs tíma lánið ætti að vera og geta um, með hverjum öðrum kjörum, sem jeg þá skal bæta inn í fyrir 2. umr.; jeg geri ráð fyrir, að það mætti vera afborgunarlaust fyrstu 2 árin eða svo, en það er gleymska mín. Að maðurinn leitar heldur til landssjóðs er sjálfsagt af því, að hann lítur svo á, að þingið telji sjer skylt að hlynna að því, að ferðamenn hafi þar húsnæði, og svo mun þetta vera fátækur maður, lánstraust hans lítið, og svo mundi landssjóður kann ske lána með betri kjörum, og þetta er svo lítið, að engin hætta er að lána það; landssjóður hefði tryggingu í húsinu, ef maðurinn hætti. Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Vona jeg, að till. verði lofað að fara til 2. umr.